Stærsta verkfræðistofa landsins verður til
Verkfræðistofurnar VGK-Hönnun hf. og Rafhönnun hf. hafa verið sameinaðar undir nafninu Mannvit hf. Með sameiningunni verður til stærsta
verkfræðistofa landsins með um 360 starfsmenn.
Grunn að hinu nýja félagi leggja þrjár rótgrónar verkfræðistofur sem allar voru stofnaðar á sjöunda áratug
síðustu aldar; Hönnun hf., Verkfræðistofa Guðmundar og Kristjáns hf. og Rafhönnun hf. Forstjóri hins nýja félags er Eyjólfur
Árni Rafnsson en aðstoðarforstjórar þeir Runólfur Maack, erlend starfsemi og Skapti Valsson, innlend starfsemi. Starfsemi Mannvits skiptist í sex
markaðskjarna en þeir eru: iðnaður, orka, byggingar, framkvæmdir og rannsóknir, umhverfi, samgöngur og veitur og upplýsingatækni.
Höfuðstöðvar Mannvits verða að Grensásvegi 1 í Reykjavík þar sem unnið er að því að stækka og endurbæta
húsnæðið. Stefnt er að því að taka nýjar höfuðstöðvar í notkun haustið 2009 en fram að því verður
fyrirtækið einnig til húsa að Laugavegi 178 og Ármúla 42. Mannvit rekur níu starfsstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins en
þær stuðla að sterkari og fjölbreyttari atvinnustarfsemi á landsbyggðinni. Þessar starfsstöðvar eru á Akranesi, Akureyri,
Húsavík, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Kirkjubæjarklaustri, Hvolsvelli, Selfossi og í Reykjanesbæ. Mannvit á hlut í nokkrum
fyrirtækjum í tengdri starfsemi, þar á meðal HRV Engineering ehf., sem býr yfir sérhæfðri tækniþekkingu og reynslu í
uppbyggingu álvera, Geysi Green Energy ehf., Vatnaskilum ehf., Loftmyndum ehf. og Skipaskoðun Íslands ehf.