13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Staðsetja ætti björgunar- og sjúkraþyrlu á Akureyri
Greint er frá því nýlega í fjölmiðlum að flugskýlið á Reykjavíkurflugvelli rúmi ekki öll loftför Landhelgisgæslunnar. Eftir komu þriðju leiguþyrlu Landhelgisgæslunnar til landsins í síðustu viku er ekki lengur rúm í flugskýlinu og því þarf að geyma eina þyrlu utandyra. Þrýst er á borgina að finna flugdeild Landhelgisgæslunnar framtíðarrými.
Auðvelt er að benda á dáðleysi og sleifarlag Reykjavíkurborgar í uppbyggingu og framþróun Reykjavíkurflugvallar. Meiru skiptir þó hver sé framtíðarsýn uppbyggingar aðstöðu flugdeildarinnar.
Aukið öryggi og þjónustugeta
Ekki ætti að hafa öll eggin í sömu körfu þegar kemur að mögulegum eldsvoða, vatnstjóni eða öðrum skaða hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Sama gildir um að hafa allar þyrlur fastar á sama veðursvæði. Að hafa allar björgunarþyrlur staðsettar í Reykjavík skerðir viðbragðstíma og þjónustugetu, sérstaklega gagnvart Norður- og Austurlandi og hafsvæðum þar sem veður geta verið válynd. Sjófarendur um norðan- og austanvert landið búa í dag við minna öryggi en aðrir þegar þyrlubjörgunarsveitin er einungis á suðvesturhorni landsins.
Lausnin felst í að staðsetja þyrlu eða hluta flugdeildar Landhelgisgæslunnar á Akureyri, nálægt landfræðilegri miðju Íslands. Augljós tenging er við sjúkraflug á Akureyri. Þar er fyrir reynsla sem nýtist flugdeildinni og geta læknar mannað hluta þyrluáhafnar.
Ég fullyrði að ólíkt borgaryfirvöldum, sem hafa staðið gegn allri framþróun Reykjavíkurflugvallar yrði leyfi til uppbyggingar aðstöðu fyrir flugdeild auðsótt á Akureyrarflugvelli.
Ljósmynd/Árni Sæberg
Skýrslur og ályktanir landssamtaka styðja þetta
Það sjónarmið að hafa þyrlu á Akureyri hefur einnig komið fram í ýmsum skýrslum, meðal annars um sjúkraflutninga. Þannig skilaði vinnuhópur um skipulag sjúkraflutninga og bráðaþjónustu utan spítala á Norðurlandi samantekt árið 2009 og benti á þann veikleika sem felst í að allar björgunarþyrlur þjóðarinnar séu staðsettar í Reykjavík. Annar verkefnahópur um endurskipulagningu sjúkraflutninga sagði í skýrslu árið 2012 að stefna bæri að því að sjúkraflug með þyrlum og flugvélum yrði á tveimur starfsstöðvum á landinu, á Akureyri og í Reykjavík.
Þegar byggja átti upp þyrluflota Landhelgisgæslunnar við brottför varnarliðsins fyrir rúmlega áratug ályktuðu ýmis samtök og stofnanir um að skynsamlegt væri að hafa fleiri en eina starfsstöð á landinu fyrir björgunarþyrlurnar til að stytta björgunartíma. Landsspítalinn í Reykjavík benti á að í ljósi mikilvægis jöfnunar á heilbrigðisþjónustu landsmanna skyldi þyrla vera staðsett á Akureyri. Undir það tóku meðal annars Félag skipstjórnarmanna og Sjómannasamband Íslands. Landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar hvatti til þess að tryggja staðsetningu björgunarþyrlu annars staðar en á suðvesturhorni landsins. Samtök útgerðarmanna vildu þyrlu á landsbygginni til að auka öryggi og margfalda þjónustugetu. — Rök að baki þessum ályktunum gilda enn.
Uppbygging innlends björgunarklasa
Uppbygging björgunarklasa á Akureyri. Fyrir liggur opinber stefnumörkun að styrkja verði leitargetu og björgun á norðurslóðum meðal annars í alþjóðlegu samstarfi, en ekki síst á þeirri innlendu þekkingu sem við búum að.
Auðvitað færi best á því að slíkt væri byggt upp samhliða þeim sterka norðurslóðaklasa sem fyrir er við Eyjafjörð. Til staðar eru innviðir sem nauðsynlegir eru slíkri starfsemi. Björgunarklasann ætti að byggja samhliða sjúkraflugi þeirri miðstöð læknisfræðilegar þjónustu sjúkraflugs í landinu sem er við Sjúkrahúsið á Akureyri. Slíkur björgunarklasi fellur vel að áformum um þróun og notkun fjarheilbrigðisþjónustu við sjúkrahúsið. Það færi vel saman við þá þjálfun sjúkraflutningamanna á Íslandi sem er rekin er við sjúkrahúsið hjá Sjúkraflutningaskólanum. Einnig öflug björgunarsveit sem hefur reynslu af störfum á Grænlandi. Á flugvellinum starfa flugvirkjar og viðhaldsþjónusta fyrir þyrlur.
Skynsamlegt væri og í anda opinberrar stefnumörkunar, sjálfbærni og byggðafestu að byggja upp leitar- og björgunargetu á norðurslóðum við Eyjafjörð. Þar ætti að staðsetja sjúkra- og björgunarþyrlu.
-Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður Norðausturkjördæmis.