27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Staða hitaveitu Norðurorku
Umræðan um hitaveitur á Íslandi hefur trúlega ekki farið fram hjá mörgum undanfarnar vikur. Hitaveitur víða um land eru komnar að þolmörkum varðandi það að geta annað eftirspurn á köldustu dögum ársins og nú hefur víða verið gripið til þess ráðs að loka sundlaugum á Suðurlandinu.
Neyðarstjórn Norðurorku kom saman fyrr í dag til að ræða stöðu hitaveitunnar. Ekki er talin þörf á að virkja viðbragðsáætlun eða huga að skömmtun að svo stöddu, en ljóst er að staðan er viðkvæm og lítið sem útaf má bregða.
Þess vegna er mikilvægt að hvetja fólk til að nýta heita vatnið sem best og huga að því hvernig og í hvað það notar heita vatnið. Það er til dæmis upplagt að gefa heita pottinum frí þá daga sem mesta frostið er, huga að stýringum á upphituðum stéttum og bílaplönum ásamt því að huga að ofnakerfi húsa. Það er mikilvægt að muna að hér líkt og annarsstaðar skiptir miklu máli að allir leggi sitt að mörkum því eins og við vitum þá gerir margt smátt eitt stórt. Með aðgerðum sem þessum er hægt að draga úr líkum á að grípa þurfi til skömmtunar þegar lengra líður á veturinn.
Í nóvember sl. var haldinn kynningarfundur þar sem málefni hitaveitunnar voru í brennidepli og yfirskrift fundarins var „Hugum að hitaveitunni, er nóg til?“ Hjalti Steinn Gunnarsson fagstjóri hitaveitu Norðurorku var einn fyrirlesara á fundinum og við hvetjum áhugasama til að kynna sér málið. HÉR má sjá frétt um fundinn ásamt link á upptöku frá fundinum.