20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Snjóflóð við munna Ólafsfjarðargangna
Vetur konungur minnti á sig í dag og um kl. 15:30fengu lögreglumenn á Tröllaskaga tilkynningu um að snjóflóð hefði fallið á veginn um Ólafsfjarðarmúla, skammt sunnan við munna Ólafsfjarðarganganna, Dalvíkurmegin. Tilkynningunni fylgdi að a.m.k. einn ökumaður væri þar í vandræðum þar sem hann hefði ekið inn í nýfallið flóðið.
Veginum var strax lokað, beggja megin, og héldu lögreglumenn úr Fjallabyggð manninum til aðstoðar. Skömmu síðar bárust frekari upplýsingar að ökumenn væru einnig í vandræðum Dalvíkurmegin við flóðið. Í kjölfarið voru björgunarsveitir á Dalvík og á Ólafsfirði kallaðar út.
Þrátt fyrir slæmt veður á svæðinu gekk vel að aðstoða þá ökumenn sem lentu þarna í hrakningum og voru þeir aðstoðaðir til baka úr sínum aðstæðum, annarsvegar til Ólafsfjarðar og hins vegar til Dalvíkur. Ein bifreið var skilin eftir á vettvangi. Engin slasaðist í verkefni þessu. Verkefni þessu lauk um kl. 18:30
Vegurinn um Ólafsfjarðarmúla er lokaður sem og Siglufjarðarvegur vestan Siglufjarðar að Ketilási í Fljótum.
Hvetjum við alla sem hyggja á ferðir á Norðurlandi, sem og á öðrum landshlutum, að fylgjast vel með á færðinni hverju sinni, s.s. á síðu Vegagerðarinnar, www.umferdin.is
Frá þessu segir à Fb. vegg lögreglunnar