Slökkvibíllinn í Grímsey er fjörgamall

Sjúkrabíllin sem fluttur var út í Grímsey árið 2017 hentar illa í flest útköll í eynni. 
Mynd: Slök…
Sjúkrabíllin sem fluttur var út í Grímsey árið 2017 hentar illa í flest útköll í eynni. Mynd: Slökkvilið Akureyrar/Facebook

Grímseyingar hafa vakið máls á því að þörf væri á því að nýir sjúkra- og slökkvibílar væru til taks í eyjunni. Slökkvibíllinn sem til staðar er í eynni er fjörgamall og ætti að vera á safni og sjúkrabílinn hentar ekki, flest slysanna verða utan alfaraleiðar og nýtist bílinn því sjaldnast.

Karen Nótt Halldórsdóttir formaður hverfisráðs Grímseyjar segist ekki vita hvert ártalið er á slökkvibíl Grímseyinga, en líkast til sé hann frá miðri síðustu öld. „Mér finnst líklegt að hann hafi komið hingað notaður frá Bretlandi, bílstjórasætið í honum er hægra megin,“ segir hún. Einn slökkvibíll er staðsettur á flugvellinum og er hann á vegum Isavia. „Við fórum að velta fyrir okkur þörfinni á nýjum bíl þegar kirkjubruninn varð í haust, en það var fyrsti eldsvoði sem hér hefur orðið í fjöldamörg ár,“ segir Karen.

Flest slysanna verða utan alfaraleiðar

 Sjúkrabílinn kom fyrir nokkrum árum til Grímseyjar en áður hafði ekki verið slíkur bíll til taks í eynni. „Það er bara því miður þannig að þegar á sjúkrabíl þarf að halda t.d. vegna slysa eða veikinda sem verða utan almenna vegakerfisins hér, t.d. norður á eyjafæti eða hér og hvar um Grímsey, kemst bílinn ekki á vettvang. Þetta er hefðbundinn bíll sem kemst ekkert út fyrir vegina. Í flestum tilvikum hafa því verið notaðir jeppar í einkaeigu sem hægt er að aka eftir slóðum utan veganna. Slysin verða flest utan við þorpið sjálft og því finnum við fyrir því að hafa ekki til reiðu bíl sem útbúinn er fyrir slíkar aðstæður,“ segir Karen Nótt.

/MÞÞ

Nýjast