Sláturtíð í skugga Covid-19
Sláturtíð Norðlenska á Húsavík hefst formlega 8. september næstkomandi en að sögn Sigmundar Hreiðarssonar, framleiðslustjóri á Húsavík verður byrjað að slátra lítils háttar strax um mánaðamótin. „Við ætlum að slátra 1., 2. og 4. September einhverju smotteríi bara og keyra á því fólki sem við höfum hérna í húsinu. Sláturtíðin átti vissulega að hefjast fyrr en starfsfólk sem er að koma að utan þarf að fara í tvær skimanir vegna Covid og vera í sóttkví á meðan,“ segir Sigmundur.
Hann segir að það sé annars búið að fullmanna sláturhúsið yfir vertíðina en að sláturtíðin verði með mjög óhefðbundnu sniði í ár vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. Það þarf að skipta fólki upp í gistingu og í mötuneyti. „Bændur sem koma með fé fá heldur ekki að koma inn í réttina eða inn í mötuneyti eins venja er. Þeir koma bara ekkert inn í húsið en það sama gildir um bílstjóra á sauðfjárbílunum og í raun alla sem ekki starfa beint í húsinu.“
Sigmundur segir jafnframt að reiknað sé með að slátra að minnsta kosti 90 þúsund fjár. Starfsfólk sláturtíðar er að koma víða að úr heiminum eins og verið hefur en í ár er talsvert meira um Íslendinga af augljósum ástæðum.
Kórónuveirufaraldurinn hefur einnig mikil á göngur þetta haustið en í flestum fjallskilaumdæmum er mælst til þess að gestir komi ekki til gangnastarfa og að blátt bann sé við því að fleiri en 100 manns taki þátt í göngum. Þá er víðast hvar ætlast til þess að þátttakendur hlaði niður smitrakninga-appi Almannavarna og að allir smalar hafi handspritt meðferðis.
/epe