Skorar á stjórnvöld
Kostnaður við rekstur Sjúkrahússins á Akureyri hefur lækkað að raungildi um rúmar 800 milljónir króna frá árinu 2008 eða um 16%. Þetta kemur fram í ársskýrslu sjúkrahússins. Á þeim rúmu fjórum árum sem liðin eru frá efnahagshruninu hefur tekist að halda úti þjónustu við sjúklinga án verulegrar skerðingar, þrátt fyrir umtalsverðan niðurskurð á fjárveitingum. Í því ljósi er óhætt að segja að árangur sjúkrahússins í rekstri og þjónustu við sjúklinga á árinu sé mjög góður, sagði Bjarni Jónasson forstjóri sjúkrahússins í ávarpi sínum á ársfundinum.
Sjúklingum fjölgaði um 6%
Þrátt fyrir niðurskurð á fjárveitingum á milli ára og 3% fækkun setinna staða varð aukning í starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri. Sjúklingum fjölgaði um rúm 6%, fæðingum um 20% og komur á slysa- og bráðamóttöku voru um 7% fleiri. Skurðaðgerðum og rannsóknum fjölgaði og dag- og göngudeildarstarfsemi jókst á milli ára, sagði Bjarni. Fjárveiting til Sjúkrahússins á Akureyri var lækkuð um 0,7% að raungildi frá árinu 2011 eða 31,5 milljónir króna. Auk þess lá fyrir að lækka þyrfti kostnað vegna halla á rekstrargrunni 2011 sem varð rúmar 100 milljónir. Almenn rekstrargjöld námu samtals 1,3 milljörðum króna sem var 40 milljónum umfram áætlun eða 3,2%.
Sjúkrahótel, líknardeild og ný legudeildarálma
Bjarni sagði að í framtíðarsýn Sjúkrahússins á Akureyri væri gert ráð fyrir að árið 2017 hafi sjúkrahótel, líknardeild og ný legudeildarálma verið tekin í notkun. Mikilvægt er að þau áform um þróun starfseminnar verði að veruleika.
Skorar á stjórnvöld
Ég skora á þau stjórnvöld sem nú eru að taka við stjórn landsins að þau standi við það sem sagt var í kosningum um að heilbrigðisþjónustuna verði að efla og þau sjái til þess að Sjúkrahúsið á Akureyri fái aukið fjármagn svo það geti haldið áfram að sinna því hlutverki sínu að vera miðstöð sérfræðiþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins og varasjúkrahús landsins, sagði Bjarni ennfremur.