Skipulagsstofnun gerir athugasemdir við háhýsabyggð á Oddeyrinni

Mynd/Þórhallur Jónsson/Pedromyndir.
Mynd/Þórhallur Jónsson/Pedromyndir.

Skipulagsstofnun gerir nokkrar athugasemdir við fyrirhugaða háhýsabyggð á Oddeyrinni á Akureyri. Á reitnum er gert ráð fyrir þéttri byggð á allt að 8 hæðum með allt að 150 íbúðum og verslunar- og þjónustustarfsemi á jarðhæðum húsa og eru fyrirhugaðar byggingar umdeildar meðal bæjarbúa. Í bréfi frá Skipulagsstofnun til bæjaryfirvalda segir um sé að ræða verulega breytingu frá áformuðu byggðamynstri og yfirbragði sem var ákveðið í nýlegum rammahluta aðalskipulags fyrir Oddeyri.

Reiturinn sem skipulagsbreytingin tekur til liggur nærri fastmótaði íbúðarbyggð og eldri húsum sem setja svip á Oddeyrina. Athugasemdir á vinnslutíma tillögunnar snúast að miklu leyti um áformaða hæð húsa en einnig koma fram athugasemdir um breytta landnotkun með hliðsjón af þörf fyrir innviði og þjónustu.

Á vinnslutíma aðalskipulagsbreytingarinnar hafa komið fram ábendingar og tillögur um skipulag götureitsins sem fela í sér lægri hús sem, að mati Skipulagsstofnunar, ætti að taka til frekari skoðunar sem raunhæfa valkosti um skipulag svæðisins í samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila. Að mati Skipulagsstofnunar ætti að setja skýrari skipulagsákvæði í aðalskipulagi, til leiðbeiningar og útfærslu í deiliskipulagi, í því skyni að draga úr neikvæðum áhrifum og stuðla að góðu aðgengi og sólríkum og skjólgóðum svæðum. Einnig ætti að setja kröfur um bíla- og hjólastæði á reitnum. Í skipulagstillögunni kemur fram að umhverfi og ásýnd Gránufélagshússins muni breytast verulega við uppbygginguna.

Í bréfi Skipulagsstofnunar segir að skoða þurfi hvernig hægt sé að koma til móts við athugasemd Minjastofnunar Íslands sem leggst alfarið gegn því að byggð verði 6-8 hæða hús aftan við hin friðlýstu Gránufélagshús. Skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur falið sviðsstjóra skipulagssviðs að gera tillögu að breytingu á skipulagsgögnum til að koma til móts við athugasemdir Skipulagsstofnunar.

Nýjast