Skíðasvæði Norðurþings stendur til boða að fá gefins stólalyftu
Uppbygging útivistasvæðis við Reyðarárhnjúk var til umræðu í sveitastjórn Norðurþings á dögunum. „Við höfum áður fjallað um þetta skíðasvæði og ég held að við séum öll sammála því að okkur sé umhugað um það að þetta svæði byggist upp,“ sagði Helena Eydís Ingólfsdóttir, fulltrúi D-lista.
Helena vakti athygli á því að skíðasvæðið í Bláfjöllum væri að hætta að nota stólalyftu sem hefur verið í rekstri í áratugi. Norðurþingi stendur til boða að fá þessa lyftu sér að kostnaðarlausu en þyrfti að standa straum af kostnaði við flutninga og uppsetningu.
Þetta er lyfta með tveggja sæta stólum sem er komin nokkuð til ára sinna en hún var fyrst tekin í notkun 1978.
„Það getur verið að lyftan henti vel á okkar svæði. Mér skilst að ástand lyftunnar sé nokkuð gott og vélbúnaðurinn í þó nokkuð góðu ástandi,“ sagði Helena og benti á að vírinn væri 2-3 ára gamall og lyftunni hafi verið haldið vel við.
Uppsetning kostnaðarsöm
„Þó við fáum lyftuna gefins þá fylgir flutningum og uppsetningu talsverður kostnaður,“ sagði hún og nefndi dæmi um að lyfta hafi verið keypt notuð fyrir skemmstu í Bláfjöllum fyrir 200 milljónir en kostnaður við uppsetningu er áætlaður um 500 milljónir. Þó er hér um að ræða talsvert stærri lyftu en Norðurþingi stendur til boða. „Mig langar til að kíkja aðeins í pakkann og skoða hvað þetta myndi kosta,“ sagði Helena en bætti við að ekki væri horft til þess að lyftan yrði tekin í notkun fyrr en í fyrsta lagi veturinn 2023-2024.
Sveitarstjóri sagði að honum þætti spennandi að kanna möguleika á uppbyggingu skíðasvæðisins „Ég hef gríðarlega hóflegar væntingar til þess að þetta geti gengið kostnaðarlega séð á allra næstu árum en vonandi. Auðvitað hljótum við að stefna að því að hér eflist byggð frekar en hitt og að það verði hægt að fara í svona ánægjuleg uppbyggingarverkefni sem auka lífsgæði hér. Ég held að allir brenni fyrir það.“
Hrund Ásgeirsdóttir fulltrúi B-lista sagðist vilja sjá uppbyggingu skíðasvæðisin verða að forgangsmáli. „Ég er gríðarlega spennt fyrir þessu skíðasvæði. Húsavík hefur upp á svo margt að bjóða. Sérstaklega yfir sumarið, þá afþreyingu sem hefur byggst upp í kringum hvalaskoðun og fleira […] Það er allt í boði í rauninni sem maður þarf á að halda. Mér finnst þetta vera forgangsmál að fá flott skíðasvæði því þá erum við búin að loka hringnum. Sumar og vetrarafþeying fyrir alla. Þá yrði þetta svæði ekki síðri kostur en Akureyri,“ sagði hún.
Sveitarstjóra var falið að kanna möguleika og kostnað við að koma lyftunni norður og setja hana upp.