Skert þjónusta vegna manneklu
Vegna mönnunarvanda í stuðningsþjónustu/heimaþjónustu hjá velferðarsviði Akureyrarbæjar þarf að skerða þá þjónustu í sumar, einkum frá byrjun júlí og fram í ágúst. Ekki hefur gengið vel að ráða fólk í sumarafleysingar og enn vantar nokkur stöðugildi til að unnt verði að halda uppi fullri þjónustu.
Reynt verður eftir fremsta megni að láta alla persónulega þjónustu halda sér en sú þjónusta sem mun falla niður snýr að þrifum og tiltekt inn á heimilum fólks. Haft verður samband við fólk og það látið vita komi til þess að þjónusta falli niður.
Á vefsíðu Akureyrarbæjar segir að haft verði samband við þau sem þjónustunnar njóta og þau beðin að láta hópstjóra vita ef viðkomandi sjá fram á að vera að heiman og þurfi mögulega ekki á þjónustu að halda tímabundið.