Skautun í íslensku samfélagi

Mynd: Guðmundur Ævar Oddsson.
Mynd: Guðmundur Ævar Oddsson.

Í byrjun júní næstkomandi verður Ráðstefnan um íslenska þjóðfélagið haldin við Háskólinn á Akureyri en yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni er „Skautun í íslensku samfélagi.“

Guðmundur Ævar Oddson, dósent við HA og einn meðlima ráðstefnunefndarinnar,  segir afar mikilvægt að rýna til gagns í þetta viðfangsefni. „Hugtakið skautun lýsir þróun í átt til aukinnar skiptingar hópa eða samfélaga í andstæða póla. Hægt er að rannsaka skautun frá ýmsum hliðum. Sem dæmi rannsaka stjórnmálafræðingar gjarnan að hve miklu leyti viðhorf til stjórnmálaflokka, -manna og málefna einkennast af skautun meðan félagsfræðingar rannsaka alla jafna skautun milli hópa sem búa við ólík kjör og tækifæri,“ segir Guðmundur. Hann segir enn fremur að hugmyndafræðileg skautun ali á vantrausti og grafi undan upplýstri umræðu og lýðræðislegum vinnubrögðum.

Ástæða er til þess að fræðafólk hérlendis sé á varðbergi gagnvart skautun í íslensku samfélagi. Má þar meðal annars nefna bakslag í baráttu hinsegin fólks, væringar á vinnu- og húsnæðismarkaði, aukna misskiptingu og átök um innflytjendamál. Guðmundur segir að í ljósi þessa hafi þeim fundist við hæfi að hafa „Skautun í íslensku samfélagi“ þema ráðstefnunnar í ár, en ráðstefnan er haldin árlega, síðast á Ísafirði.

Gera má ráð fyrir að fjöldi fræðafólks úr öllum greinum hug- og félagsvísinda verði með erindi á ráðstefnunni sem hefst föstudaginn 2. júní kl 9:00 og lýkur um miðjan dag laugardaginn 3. júní. Fyrirlestrar eru öllum opnir.

Nýjast