Sjómenn samningslausir í þrjú ár

Trausti Jörundarson formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar er með pistil á heimasíðu félagsins um  stöðuna i kjaramálum sjómanna en þeir hafa verið samningslausir i þrjú ár. 

Í pistli Trausta segir:  

Nú eru liðinn 3 ár frá því að kjarasamningar sjómanna runnu út og ekkert sem bendir til að það náist saman í þeirri deilu.

Aðalkrafa sjómanna er að fá inn svokallaða tilgreinda séreign sem aðrir á vinnumarkaði hafa fengið og margir farnir að nýta sér. Lækkun á tryggingargjaldi til fyrirtækja átti að koma til móts við þessa kröfu og hefur verið gert frá 2016 en útgerðafyrirtæki hafa ekki séð sóma sinn í því að greiða sjómönnum þessa tilgreindu séreign en hafa þegið þessa lækkun á tryggingargjaldinu sem er nú komið í rétt um milljarð í sparnað fyrir þessi fyrirtæki. Það er hreint með ólíkindum að ekki sé hægt að mætast með þetta og reyna að ná endum saman svo sjómenn geti unnið sína vinnu með gildandi kjarasamning.

Á síðustu 12 árum hafa sjómenn verið með gildan kjarasamning í 2,5 ár, þetta er einsdæmi í hinum vestræna heimi. Hvernig eiga sjómenn að horfa til vinnuveitenda sinna þegar virðingin fyrir þessum störfum er á svona lágu plani? Það er vandlifað að vera útgerðarmaður og umtal um þessa atvinnugrein er á þann hátt að ég mundi halda það að gera kjarasamning við sína launþega gerði þeim ekkert nema gott.

Við erum á þeim stað núna að það er nánast útilokað að aðilar nái saman þar sem krafa útgerðarinnar er einföld, lækkun á launum sjómanna sem nemur tilgreindri séreign og gott betur. Hvernig á það að ganga upp fyrir okkur sem stöndum í þessu að kynna fyrir okkar félagsmönnum tímamótasamning eins og SFS talar um og sjómenn horfa á lækkun í launum, reyndar mismikið eftir veiðigreinum en allir fengju kjaraskerðingu út úr þessu. Það kemur ekki til greina að samþykkja svona lagað og það hefur heldur betur sýnt sig að útgerðarfyrirtækin eru vel í stakk búin til að mæta þessum kostnaði án tekjuskerðingar fyrir sjómenn.

Þess má einnig geta að þegar kemur að samningamálum sjómanna erum við ekki bara að deila við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi SFS, heldur þarf ævinlega að blanda ríkinu á einhvern hátt inni í kjaraviðræður, t.d. með skattaafslætti til útgerðar svo hægt sé að mæta okkar hófstilltu kröfum.

Trausti Jörundarson formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar.

 

Nýjast