13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Sjö milljarðar í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri
Bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt að forgangsröðun þverpólitísks hóps um uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri verði höfð til hliðsjónar við undirbúning langtíma fjárfestingaáætlunar bæjarins. Í skýrslu starfshópsins um nýframkvæmdir íþróttamannvirkja er að finna tillögur að forgangsröðun uppbyggingar næstu 15 árin.
Forgangslistinn telur 11 verkefni og er heildarkostnaður við þau gróflega metinn á 6.750 milljónir króna. Í vinnu sinni horfði starfshópurinn til atriða sem skipta máli fyrir bæjarfélagið í heild. Einkum var litið til fjölbreytni og gæða núverandi mannvirkja, nýtingu þeirra, fjölda iðkenda, skólastarfs, ferðaþjónustu og almennings. Segir í bókun bæjarstjórnar að verkefnin hafi verið metin út frá fjárhagslegum og félagslegum forsendum og endurspegla niðurstöður hópsins þá þörf sem er til staðar í bænum.
„Um tímamótaáætlun er að ræða þar sem horft er til framtíðar í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri og þeim forgangsraðað. Nú þegar er búið að samþykkja fyrsta verkefnið samkvæmt áætluninni og undirbúningur hafinn á næstu tveimur,“ segir í bókun bæjarstjórnar.
Fyrsta verkefnið sem vísað er til er uppbygging á félagssvæði Nökkva við Höpnersbryggju. Félags- og æfingaaðstaða í Skautahöll Akureyrar er næst á listanum og þar á eftir er gervigrasvöllur og stúka á félagssvæði KA.
Verkefnin 11:
1. Uppbygging á félagssvæði Nökkva við Höpnersbryggju. Byggja félagsaðstöðu og bátageymslu. Kostnaður um 150 m.kr
2. Félags- og æfingaaðstaða í Skautahöll Akureyrar. Reisa félags- og æfingaaðstöðu í norðurenda Skautahallar. Núverandi aðstaða er ekki til fyrirmyndar hvorki fyrir iðkendur né almenning. Kostnaður um 150 m.kr.
3. KA gervigras og stúka. Útbúa æfinga- og keppnisaðstöðu á gervigrasi á félagssvæði KA ásamt stúkubyggingu. Leggur hópurinn til að útbúinn verði löglegur keppnisvöllur á svæði KA samkvæmt leyfiskerfi KSÍ. Kostnaður um 1.000 m.kr
4. KA félagsaðstaða. Útbúa félagsaðstöðu fyrir daglega starfsemi félagsins, æfingaaðstaða fyrir deildir innan félagsins, búningsklefar fyrir starfsemina. Kostnaður um 500 m.kr
5. Hlíðarfjall þjónustuhús. Reisa þjónustuhús fyrir starfsemi Skíðastaða í Hlíðarfjalli sem mun m.a. innihalda veitingaaðstöðu og salerni, miðasölu fyrir gesti, aðstöðu fyrir skíðaskóla, aðstöðu fyrir 4 skíðaleigu, aðstöðu fyrir Skíðafélag Akureyrar, aðstöðu fyrir starfsfólk. Kostnaður um 450 m.kr
6. Golf- vetraraðstaða. Reisa innanhússæfingaaðstöðu við golfskálann að Jaðri. Kostnaður um 100 m.kr
7. Innisundlaug. Byggja 50 metra innanhússundlaug fyrir kennslu, æfingar og keppni. Kostnaður um 1.500 m.kr
8. Þór - vestan við Bogann. Byggja félags-, æfinga- og geymsluaðstöðu við vesturhlið Bogans. Aðstaða fyrir deildir félagsins til æfinga, félags- og skrifstofuaðstaða deilda, salerni og geymsla fyrir starfsemi í Boganum. Kostnaður um 600 m.kr
9. Þór íþróttahús. Byggja íþróttahús á félagssvæði Þórs fyrir innanhússíþróttagreinar. Kostnaður um 1.000 m.kr
10. Þór - gervigras á æfingasvæði. Útbúa utanhúss gervigrasæfingasvæði á félagssvæði Þórs. Kostnaður um 300 m.kr
11. KA íþróttahús. Byggja íþróttahús á félagssvæði KA fyrir innanhúsgreinar. Kostnaður um 1.000 m.kr.