Sjálfsbjargarfélagar fengu gullmerki
Föstudaginn 13. september sl. hélt stjórn Sjálfsbjargar á Akureyri og nágrenni hóf þar sem tekið var á móti stjórn Sjálfsbjargar, landssambandi hreyfihamlaðra og nokkrum boðsgestum. Stjórn landssambandsins var komin til að heiðra og veita gullmerki Sjálfsbjargar þremur fyrrverandi formönnum, þeim Halldóri Valdimari Péturssyni, Jóni Hlöðveri Áskelssyni og Snæbirni Þórðarsyni, og einnig sitjandi formanni Sjálfsbjargar á Akureyri, Herdísi Ingvadóttur.
Formaður Landssambandsins, Bergur Þorri Benjamínsson, ávarpaði þau hvert fyrir sig og fór yfir helstu trúnaðarstörf sem þau fjögur hafa sinnt. Þeim var öllum þakkað mikið og óeigingjarnt starf í þágu Sjalfsbjargar. Erfitt starf og mikil ábyrgð hvíldi á herðum þeirra sem byggðu upp húseignina að Bjargi og drifu upp margþættan rekstur, sem lengi vel barðist í bökkum.
Sjálfsbjörg, félag fatlaðra á Akureyri og nágrenni, á og rekur endurhæfingastöðina á Bjargi sem var stofnuð árið 1970. Undir stjórn Herdísar hefur reksturinn vaxið og hefur hann gengið vel mörg undanfarin ár. Aðbúnaður og aðstaða á Bjargi er mjög góð. Starfslið við endurhæfingu og iðjuþjálfun er 16 manns. Framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar á Akureyri er Jón Harðarson sjúkraþjálfari, en hann tók við af Pétri Arnari Péturssyni sem hætti vegna aldurs árið 2018 eftir sextán ára farsælt starf. Pétur, ásamt Herdísi og stjórninni, vann að því að endurskipuleggja reksturinn á Bjargi og selja eignir. Sjálfsbjörg á sér marga velunnara. Þökk sé mörgum sem lagt hafa félaginu lið með stuðningi, gjöfum eða með erfðaskrá.
Félagið leggur sig fram við að bæta aðstöðu fatlaðra og hefur nú yfir að ráða afar vel útbúnum sumarbústað með aðgengi fyrir alla. Félagsmenn sitja fyrir við afnot af bústaðnum sem heitir Furuholt og er við Vestmannsvatn. Sjálfsbjörg á Akureyri rekur einnig Hjálparsjóð sem veitir félagsmönnum styrki til ýmissa verkefna eða framkvæmda og er úthlutað einu sinni á ári. Nýir félagar eru velkomnir í félagið. Sækja má um félagsaðild á heimasíðunni, bjargendurhaefing.is , eða með heimsókn eða símtali á Bjarg.
-Kristín Sigfúsdóttir