Silungur, kjúklingur og hnetur á súkkulaði

Hrafnhildur Ævarsdóttir ljósmóðir tók áskorun vinkonu sinnar Önnu Rósu Magnúsdóttur og hún er hér mætt með girnilegar uppskriftir í matarkrók vikunnar. “Hér býð ég upp á tvo aðalrétti og smá nammi. Þetta eru allt réttir sem Anna Rósa hefur fengið hjá mér í matarboði og einnig mæli ég heilshugar með grænmetislasagnanu í síðasta Vikudegi; hef eldað það oft. Varðandi silungsuppskriftina þá er tilvalið að grafa nokkur flök í einu og skella í frost og grilla svo þegar hausta tekur; þá er hægt að hafa nýjar kartöflur og grænmeti beint úr garðinum með,” segir Hrafnhildur.

Grafinn og grillaður

2 silungs eða laxaflök  (um 1kg alls)

1 msk. salt

4 msk. sykur

3 msk. sítrónupipar

4 dl ferskt saxað dill eða 4 msk þurrkað dill

Veiðið fiskinn!!

Flakið, beinhreinsið og þerrið.

Blandið öllu kryddi saman og stráið yfir flökin. Leggið þau saman og pakkið í plast. Látið bíða í ísskáp í nokkra klukkutíma; grafa að morgni og grilla að kvöldi. Tíminn fer eftir þykkt flakanna. Skafið svo mest af kryddinu af og grillið á útigrilli, gjarnan í fiskiklemmu. Fyrst með roðið upp í 5 mín og svo í 5 mín með roðið niður. Borið fram með kartöflum og góðu salati. Köld sósa að vali ef vill. Grillaður kaldur fiskur daginn eftir er einnig lostæti.

Tandoori-kjúklingur

4 kjúklingabringur

1 brytjuð rauð paprika

2  saxaðir laukar

4 söxuð hvítlauksbréf

Olía

3 tsk. tandoori krydd

½ tsk. rósapipar

3 muldar grófar bruður

200 g saxaðar salthnetur

1/4-1/2 ltr rjómi

Salthnetur ristaðar á þurri pönnu og settar  saman við bruðurnar í skál.

Paprika og allur laukur er mýkt í olíu í potti.

Kjúklingabringurnar eru skornar í stóra munnbita, kryddað með tandoori og piparnum og steikt á pönnu.

Kjúklingurinn eru svo settur í eldfast mót, grænmetinu dreift yfir og svo hnetublöndunni. Að lokum er rjómanum hellt yfir.

Eldað í ofni við 200´c í ca 20 mín (fer eftir stærð bitanna). Má líka láta malla á pönnunni. Borið fram með hrísgrjónum og salati.

Hnetur á súkkulaði

Bræðið 100 g af 56% súkkulaði og dreifið á álpappír í þunnt lag.

Þar ofan á dreifið þið svo ykkar uppáhaldshnetum/fræjum, kókosflögum og þurrkaðum ávextum td papaya og ananas. Má vera nokkuð mikið  og kælið, svo allt festist í súkkulaðinu. Þá er hægt að brjóta súkkulaðið niður á frjálslegan hátt og setja á fallegt fat. Ef tími er þá er tilbreyting í því að þurrrista hneturnar á pönnu með skvettu af tamari sojasósu áður en er raðað  á súkkulaðið.

Nýjast