Dagskráin 29. janúar - 5. febrúar - Tbl 4
Birkir Blær yfirgefur Universal og freistar gæfunnar á eigin vegum
„Eftir samskipti mín við Universal og reynslu margra annarra tónlistarmanna sem ég þekki hef ég tekið þá ákvörðun að vera sjálfstæður. Fyrir mig er það einfaldara en fyrir marga aðra, því ég spila á öll hljóðfæri sjálfur, tek upp, útset og hljóðblanda allt sjálfur,» segir Birkir Blær Óðinsson 25 ára tónlistarmaður frá Akureyri og Eyjafjarðarsveit sem hefur sagt skilið við Universal útgáfufyrirtækið og hyggst freista gæfunnar á eigin vegum.
Birkir Blær hefur fengist við tónlist frá 8 ára aldri, en hann gaf út sitt fyrsta lag, Picture árið 2018. Ári síðar kom lagið Stay og 2020 gaf hann út plötuna Patient sem vakti verðskuldaða athygli.
,,Ég bókaði fullt af tónleikum til að fylgja henni eftir en þá kom kórónuveiran upp og öllu var aflýst," segir hann. Sama ár flutti kærasta hans til Svíþjóðar til að hefja þar nám og hann fylgdi henni eftir. ,,Ég var að vona að geta komið tónlist minni á framfæri í Svíþjóð en faraldurinn hélt áfram að þvælast fyrir."
Sigurvegari í sænska Idolinu 2021
Birkir tók þátt í sænska Idolinu og vann þá keppni í desember árið 2021. ,,Það var mjög gaman" segir hann en í kjölfarið fékk hann útgáfusamning við Universal. Kveðst hann litla samleið hafa átt með starfsfólki þar, en sér hafði verið lofað fullu tónlistarlegu frelsi. ,,Þegar á hólminn var komið varð það ekki svo. Þau vildu að ég myndi gefa út ákveðna tegund af tónlist sem ég vildi alls ekki gera. Það gekk því hvorki né rak í tæp tvö ár en þá vorum við sammála um að skilja að skiptum."
Aflýstu öllum tónleikum
Birkir Blær lýsir því þannig að samningurinn við Universal hafi verið á þann veg að fyrirtækið tók 80% af allri innkomu laga Birkis Blæs gegnum spilun í fjölmiðlum og á tónlistarveitum. Þeir áttu jafnframt allan rétt af lögunum. Hann sjálfur fékk 80% af innkomu af tónleikum og segir það hafa litið vel út á pappírum. Þegar kom að því að hann vildi snúa sér að því að semja þá tónlist sem hann langaði sjálfan til aflýsti fyrirtækið öllum tónleikum, þar á meðal svonefndri sigurtónleikaröð sem hefð er fyrir að sigurvegari í Idol fari í.
,,Þeir fengu þokkalegar tekjur af lögunum mínum sem fengu talsverða spilun, en ég fékk sáralítið í minn hlut. Eftir þessi samskipti mín við Universal og reynslu margra annarra tónlistarmanna hef ég tekið þá ákvörðun um að starfa sjálfstætt," segir hann. Á liðnu ári gaf hann úr lagið Leaders sem fékk góða dóma en litla spilun því stóru fyrirtækin ráða miklu þar um.
,,Ég hafði ekki burði til að fylgja laginu eftir með tónleikaferð, enda er mitt plan að gefa út plötu á þessu ári og fylgja henni eftir en það kostar peninga," segir Birkir Blær. Hann leitar eftir stuðningi, því kostnaður við útgáfu plötunnar og að fylgja henni eftir kostar að lágmarki tvær milljónir króna.
,,Ég er að hefja þessa vegferð og byrja að leita á heimaslóðum," segir hann.