Minningarorð - Brynjar Elís Ákason
Brynjar Elís Ákason
Þar sem englarnir syngja sefur þú
Sefur í djúpinu væra
Við hin sem lifum, lifum í trú
Að ljósið bjarta skæra
Veki þig með sól að morgni
Veki þig með sól að morgni
Drottinn minn faðir lífsins ljós
Lát náð þína skína svo blíða
Minn styrkur þú ert, mín lífsins rós
Tak burt minn myrka kvíða
Þú vekur hann með sól að morgni
Þú vekur hann með sól að morgni
Faðir minn láttu lífsins sól
Lýsa upp sorgmætt hjarta
Hjá þér ég finn frið og skjól
Láttu svo ljósið þitt bjarta
Vekja hann með sól að morgni
Vekja hann með sól að morgni
Drottinn minn réttu sorgmæddri sál
Svala líknarhönd
Og slökk þú hjartans harmabál
Slít sundur dauðans bönd
Svo vaknar hann með sól að morgni
Svo vaknar hann með sól að morgni
Farðu í friði vinur minn kæri
Faðirinn mun þig geyma
Um aldur og ævi þú verður mér nær
Aldrei ég skal gleyma
Svo vöknum við með sól að morgni
Svo vöknum við með sól að morgni
Höf: Bubbi Morthens.
Núna er erfitt að finna réttu orðin, öfugt við þegar þau Helga giftu sig síðast liðið sumar. Þau voru glæsileg, vel menntuð ung hjón og framtíðin brosti við þeim. Við töldum að ykkur gengi allt að sólu. En í raun vitum við aldrei hvað í annars huga býr.
Brynjar hafði einstaklega góða nærveru, var sérstaklega geðgóður, kurteis og hafði afskaplega smitandi og skemmtilegan hlátur. Brynjar var hjálpsamur og duglegur og vann sín verk af kostgæfni. Þó hann færi ekki hratt yfir var hann ótrúlega verklaginn og verkadrjúgur. Vann sín störf af vandvirkni og nákvæmni.
Þegar hann var vinnumaður hjá okkur á Nípá var hann fljótur að læra nöfn og númer á kúnum enda með eindæmum töluglöggur. Hann var fljótur að læra réttu handtökin við mjaltirnar. Hann sagði færðu þig „Elskan“ og ýtti hraustleg við kúnum á básnum. Þó hann hefði lítið gaman af dýrum eða búskap var hann nærgætin við kýrnar og sýndi þeim tilhlýðilega virðingu
Brynjar hafði mjög gaman af silungsveiði og fór stundum á kvöldin með veiðistöngina niður að á og hafði gaman af því veiða í soðið: „Að draga björg í bú“.
Við höfðum engar áhyggjur af honum á vélum og tækjum vegna þess að hann var enginn glanni, þar hafði skynsemin yfirhöndina eins og vanalega, var gætinn og varkár.
Við erum þakklát fyrir að hafa kynnst Brynjari og haft hann í lífi okkar. Við eigum margar góðar minningar sem við getum huggað okkur við í sorginni.
Brynjar var svo innilega einn af Íslands bestu sonum.
Elsku Helga, Bryndís, Blómasystur, Ásta, Þór og aðrir aðstandendur missir ykkar er mikill en minningin um góðan dreng mun lifa í huga okkar allra.
Dísa og Kári bóndi á Nípá.