Dagskráin 29. janúar - 5. febrúar - Tbl 4
Hollvinir SAk gáfu tækjabúnað fyrir nær 62 milljónir
Á árinu 2024 gáfu Hollvinir Sjúkrahúsinu á Akureyri tækjabúnað að andvirði tæplega 62 milljóna króna. Gjafirnar bæta starfsaðstöðu starfsfólks SAk og gerir þeim kleift að bæta þjónustu við sjúklinga.
„Gjafirnar skipta sköpum fyrir starfsemina og sýna í verki hversu mikilvægt sjúkrahúsið er í augum samfélagsins okkar,“ segir Ragnheiður Halldórsdóttir framkvæmdastjóri lækninga og tengiliður við Hollvini á vefsíðu SAk.
Speglunarstæður
Á haustmánuðum afhentu Hollvinir skurðstofum sjúkrahússins tvær glænýjar speglunarstæður sem koma í stað eldri tækja sem voru úr sér gengin. Andvirði stæðanna nemur 28 milljónum króna og styrkir verulega aðstöðu skurðstofanna til að veita skjólstæðingum bestu mögulegu meðferð.
Nýr hitakassi
Barnadeildin fékk nýjan og fullkominn hitakassa af gerðinni Babyleo frá Dräger að gjöf rétt fyrir jól og mun hann bæta meðferð og umönnun á hágæslu nýbura. Nýi hitakassinn er bæði notendavænn og auðveldur í umgengni og leysir af hólmi eldri gerð sem kominn var til ára sinna og ekki lengur hægt að fá varahluti í.
Tvær þvottavélar
Í október færðu Hollvinir speglunardeild nýjar þvottavélar. Starfsfólk segir mikilvægt að geta haldið úti ristil- og magaspeglunum með almennilegum þvottavélum fyrir tækin.
Öndunarmælingatæki
Hollvinir gáfu einnig öndunarmælingatæki á rannsóknastofu lífeðlisfræðideild sem bætir greiningu og meðferð sjúklinga með öndunarvandamál. Nýja tækið (Vintus One) gefur möguleika á mismunandi tegundum öndunarmælinga, s.s. fráblástursmælingu, loftdreifiprófi, mælingu á rúmmáli lungna og sveiflumælingu.
Sjúkrahúsið á Akureyri er þakklátt fyrir mikilvægt framlag og veittan stuðning Hollvina. „Þessar gjafir endurspegla einstakan samfélagslegan samtakamátt samtakanna,“ segir á vefsíðu SAk