Margir kórfélagarfélagar sungið saman í áratugi

Kirkjukór Húsavíkur ásamt söngkonunni húsvísku, Ruth Ragnarsdóttur. Mynd/Hjálmar Bogi
Kirkjukór Húsavíkur ásamt söngkonunni húsvísku, Ruth Ragnarsdóttur. Mynd/Hjálmar Bogi

Í Kirkjukór Húsavíkur er ekki tjaldað til einnar nætur en fjöldi kórmeðlima hefur fengið viðurkenningar fyrir áratugastarf. Jónína Á. Hallgrímsdóttir er ein þeirra en hún hefur sungið með kirkjukórum í 64 ár, þar af í 54 í Kirkjukór Húsavíkur. Hún segir það alveg ljóst að kórinn sé mikilvægur hluti af samfélaginu og skapi sterka tengingu meðal kórfélaga. Formaður kórsins, Pétur Helgi Pétursson segir starfið einstaklega gefandi. „Með ástríðu okkar fyrir tónlistinni og eldmóði til að halda áfram að þróast, er framtíðin björt fyrir Kirkjukór Húsavíkur,“ segir hann.

Það kom frekar flatt upp á Jónínu Á. Hallgrímsdóttur, félaga í Kirkjukór Húsavíkur þegar blaðamaður Vikublaðsins hafði samband í vikunni til að forvitnast um tíma hennar í kórnum en viðurkenndi að þetta væri að verða talsverður tími. „Þetta verða 54 ár á þessu ári en þar áður var ég í ein tíu ár í kirkjukórnum að Grenjaðarstað. Það var þannig að móðir mín var organisti á Grenjaðarstað á þessum tíma. Maður byrjaði bara á því að syngja þar í kirkjunni á táningsaldri. Mér þótti það svo sjálfsagt að fara með henni til kirkju að syngja,“ segir Jónína hógvær og er hvergi nærri hætt þó komin séu 64 ári í kirkjukór.

Gefandi starf

Það þarf betri mann með tölur en blaðamann til að reikna út stundirnar sem Jónína hefur gefið samfélagi sínu í gegnum kórastarfið en það er ljóst að þær eru margar og þá hlýtur það jafnframt að vera gefandi að taka þátt í þessu.

Það er æði margt spennandi við kórastarfið skal ég segja þér. Bæði er það félagsskapurinn og svo er bara svo gaman að syngja í kór. Maður getur til dæmis alls ekki verið í vondu skapi þegar maður er að syngja,“ segir Jónína hlæjandi og bætir við að þetta sé svo gott fyrir sálina. „Þetta kveikir á ansi mörgu hjá manni. Svo náttúrlega eignast maður marga félaga í kórnum fyrir utan alla organistana og listafólkið sem ég er búin að kynnast í gegnum árin í þessu starfi og ekki síst fólkið sem heimsækir kirkjuna við hin ýmsu tilefni.“

Organistar frá ýmsum heimshornum

Organistar á Húsavík hafa komið víða að í gegn um tíðina og það er ekki laust við að Jónína hafi upplifað hálfgerða heimsreisu með kynnum sínum af þeim í gegn um árin.

Já, ef við lítum á það þannig þá eru þetta ansi mörg lönd,“ segir Jónína og skellir upp úr áður en hún ítrekar hvað það sé gefandi að syngja. „Og eins og ég segi að kynnast öllu þessu góða fólki, það hefur margt gott komið út úr því.“

Nú fer blaðamaður aftur að rembast við að telja í huganum og veltir því í leiðinni fyrir sér hversu marga presta Jónína hafi sungið af sér í gegnum tíðina.

Hefur sungið fyrir fjölda presta og biskupa

Kirkjukór Húsavíkur á æfingu. Mynd/Hjálmar Bogi

Það er nú það,“ segir Jónína og bætir við hlæjandi: „Ég myndi nú þurfa hugsa um stund til að geta talið það allt saman upp. Ef maður telur með þá sem hafa verið að leysa af, þá er þetta orðin talsverður fjöldi og sérstaklega organistarnir. Þeir eru orðnir mjög margir sem ég hef sungið með.“

Það eru ekki bara prestar sem hafa komið og farið í tíð Jónínu með Kirkjukórnum. Á sunnudag sl. var sérstakur gestur í messu í Húsavíkurkirkju, engin önnur en Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands.

Jú jú, ég er nú búinn að syngja fyrir biskupa,“ segir Jónína og bætir við að Guðrún sé langt í frá fyrsti biskupinn sem hún syngur fyrir. „Ekki nú aldeilis,“ botnar hún í gegn um hláturinn.

Ómetanlegur félagsskapur

Og Jónína er ekki í vafa þegar hún er spurð að því hvað standi helst upp úr á þessum 64 árum. En þar er félagsskapurinn henni ofarlega í huga. „Mér finnst það aðallega vera vinskapurinn við allt þetta góða fólk sem maður hefur kynnst á þessu brölti mínu. Svo náttúrlega höfum við iðkað það að fara í ferðalög saman. Við söfnum í sjóð og við höfum svo farið í nokkrar utanlandsferðir, m.a. með organistunum okkar til þeirra heimalanda, sungið þar og skemmt okkur um leið.“

Margar klukkustundir á ári

Pétur Helgi Pétursson, formaður Kirkjukórs Húsavíkur tekur undir með Jónínu um að kórastarfið sé einstaklega gefandi og sé sem betur fer krefjandi um leið. Það séu 30-35 manns sem syngja í kórnum að jafnaði undir dyggri stjórn Attila Szebik frá Ungverjalandi. „Þetta er náttúrlega heilmikið starf en mjög gefandi í alla staði. Það fer talsverður tími í þetta líka en ég var að taka það saman í dagbókinni og samkvæmt henni komum við 99 sinnum saman á síðasta ári og það eru alltaf tveir tímar í senn. Þannig að það þarf að halda sér við efnið,“ segir Pétur léttur í bragði.

Pétur vekur líka athygli á því að það gefi auga leið að kórastarfið sé skemmtilegt, starfsaldur kórfélaga beri vitni um það.

Ótrúlega mikil reynsla í kórnum

Það var stór hópur hjá okkur sem fékk viðurkenningu frá Þjóðkirkjunni nýlega fyrir að hafa verið í kirkjukór í 30, 40 og svo 50 ár. Við erum náttúrlega að syngja í flestum athöfnum og jarðarförum, auk þess förum við reglulega í Hvamm og Skógarbrekku, bæði á páskum, jólum og annað slagið þar á milli. Svo höfum við verið með alls kyns tónleikahald,“ segir Pétur og bætir við messan með biskupi á sunnudag fyrir viku hafi verið einstök upplifun með 150 gestum í kirkjunni.

„Þetta er mjög gefandi starf og það er líka ótrúlega ánægjulegt að sjá hversu mikill áhugi og eldmóður er meðal kórfélaga. Við erum eins og ein stór fjölskylda og það er alltaf gaman að koma saman og syngja,“ segir Pétur og bætir við að kórinn sé í stöðugri þróun.

Verða sífellt betri

Kórinn hefur þróast mikið í gegnum árin. Við höfum fengið nýja félaga og misst aðra, en það er alltaf ákveðin kjarni sem heldur áfram. Við höfum líka þróað tónlistina okkar og bætt við nýjum lögum og verkum. Það er mikilvægt að halda áfram að þróast og aðlagast nýjum tímum,“ segir Pétur og dregur fram samheldnina í hópnum sem einn af helstu styrkleikum kórsins.

Það er fyrst og fremst ástríðan fyrir tónlistinni og félagsskapurinn. Við eigum öll sameiginlegt áhugamál og það skapar sterka tengingu. Svo er það líka ánægjan af því að koma saman og syngja, að skapa eitthvað fallegt saman. Það er ómetanlegt,“ segir Pétur og bætir við að kórinn sé gífurlega mikilvægur fyrir samfélagið allt.

Mun blómstra um ókomin ár

Ég sé bjarta framtíð fyrir Kirkjukór Húsavíkur. Við höfum sterkan kjarna og mikinn áhuga meðal kórfélaga. Það er mikilvægt að halda áfram að þróast og aðlagast nýjum tímum, en ég er viss um að kórinn mun halda áfram að blómstra og skapa fallega tónlist um ókomin ár. Kórinn er öllum opinn og alltaf þörf á nýju fólki,“ segir Pétur Helgi að lokum.

Nýjast