Sigga Dögg fræddi unga Akureyringa um kynlíf

Sigga Dögg fræddi ungmenni í 10. bekk í grunnskólum Akureyrar um kynlíf. Mynd/akureyri.is
Sigga Dögg fræddi ungmenni í 10. bekk í grunnskólum Akureyrar um kynlíf. Mynd/akureyri.is

Í síðustu viku kom Sigga Dögg kynfræðingur í heimsókn til Akureyrar og hélt fyrirlestra fyrir nemendur í 10. bekk í grunnskólum, nemendur í framhaldsskólum og fyrir foreldra. Samtals hélt hún ellefu fyrirlestra á þremur dögum. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar.

Sigga Dögg hefur verið áberandi í fjölmiðlum undanfarin misseri þar sem hún fjallar á opinskáan hátt um allt sem viðkemur kynlífi. Akureyrarbær leggur mikla áherslu á að vera í fararbroddi í forvarnarfræðslu og taka á þeim málum sem þurfa þykir hverju sinni.

Kynfræðsla fyrir börn og unglinga gerir þeim betur kleift að takast á við eigin tilfinningar og taka ákvarðanir sem stuðla að eigin kynheilbrigði. Með góðri fræðslu eru unglingar betur undir það búnir að takast á við þann félagslega þrýsting sem er í umhverfinu og þeir eru líklegri til að geta myndað gott og heilbrigt ástarsamband í framtíðinni. Þekking á kynlífi getur hjálpað þeim að vernda sig gegn kynferðislegri misnotkun og fyrir því að misnota aðra.

Meðan á heimsókn Siggu Dögg stóð mætti hún einnig í viðtal til forvarna- og félagsmálaráðgjafa bæjarins í hlaðvarpi FÉLAK sem verður aðgengilegt á hlaðvarpsrás Akureyrarbæjar síðar í mánuðinum.

Nýjast