27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Sérhefti Nordicum-Mediterraneum er komið út
Í þessu sérhefti af Nordicum- Mediterraneum eru birtar greinar byggðar á fimm erindum sem flutt voru á ráðstefnu sem haldin var í tilefni af því að herra Ólafi Ragnari Grímssyni var veitt heiðursdoktorsnafnbót á sviði félagsvísinda af Hug-og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri þann 30. september 2022.
Ólafur Ragnar Grímsson er hefur markað djúp spor í Íslandssöguna á farsælum ferli sem fræðimaður, þjóðhöfðingi, alþjóðlegur stjórnmálamaður og frumkvöðull í umræðu um málefni norðurslóða og kallast erindin með ýmsum hætti á við þessa þætti í starfi hans.
Í tilefni af veitingu heiðursnafnbótarinnar var haldið málþing undir yfirskriftinni „Háskólar, lýðræði og Norðurslóðir – breytt heimsmynd” við Háskólann á Akureyri og eru greinarnar sem hér birtast sem áður segir byggðar á erindum á ráðstefnunni.
Greinarnar eru þessar:
Í greininni „Fræðin sem komu inn úr kuldanum“, eftir Þorstein Gunnarsson, fyrrverandi rektor Háskólans á Akureyri er fjallað um þróun norðurslóðafræða síðustu 30 árin.
Greinin „Breytt heimsmynd og norðurslóðir“, eftir Albert Jónsson, alþjóðastjórnmálafræðing og fyrrverandi sendiherra, fjallar um þær vaxandi líkur sem eru taldar á að bráðnun hafíss á norðurslóðum af völdum hlýnun jarðar leiði til þess, eftir miðja öldina, að Norður-Íshaf opnist fyrir siglingar.
Í grein eftir Guðrúnu Geirsdóttur, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands er veitt yfirlit yfir rannsóknarverkefnið „Háskólar og lýðræði: Gagnrýnin greining á borgaralegu hlutverki háskóla í lýðræðisþjóðfélagi“, sem hlaut styrk til þriggja ára úr Rannsóknarsjóði Rannís vorið 2018.
„Íslensk stjórnmálafræði – yfirlit um hálfrar aldar sögu“, eftir Ólaf Harðarson, prófessor emeritus við HÍ. Í greininni rekur Ólafur það helsta sem hefur verið skrifað um þróun íslenskrar stjórnmálafræði og nýtir sér yfirlit úr grein sem Ólafur Ragnar Grímsson skrifaði árið 1977 um tíu verkefni og rannsóknarsvið sem biðu íslenskra stjórnmálafræðinga að vinna í. Fer hann yfir þessi svið eitt af öðru og gerir grein fyrir rannsóknum og skrifum á hverju þeirra fyrir sig þannig að úr verður heildstætt og almennt yfirlit yfir rannsóknir og fræðiskrif stjórnmálafræðinnar.
Í greininni „Mikilvægi stjórnarskrár í lýðræðislegu samfélagi“, eftir Ragnheiði Elfu Þorsteinsdóttur, lektor við Lagadeild HA er farið yfir fræðilegar hugmyndir um hlutverk stjórnarskrár og hvernig þær setja lýðræðinu skorður.
„Eins og sjá má spanna erindin vítt svið og tengjast með ólíkum hætti ýmsum þáttum í ævistarfi Ólafs Ragnars Grímssonar. Öll eru erindin þó sérlega áhugaverð og eiga erindi við áhugafólk og fræðimenn. Því viljum við gera þau aðgengileg með birtingu í þessu sérhefti af Nordicum- Mediterraneum.“ segir Birgir Guðmundsson, gistaritstjóri Nordicum-Mediterraneum.