20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Séra Bolli kveður Laufás
Séra Bolli Pétur Bollason sóknarprestur í Laufási hefur staðið fyrir föstugöngu á föstudeginum langa undanfarin átta ár og á því verður engin breyting í ár. Þetta verður hins vegar í síðasta sinn sem Bolli sér um gönguna þar sem hann mun senn hætta störfum. Bolli og séra Sunna Dóra Möller eiginkona hans flytjast senn búferlum suður á bóginn þar sem Sunna fékk nýverið stöðu sóknarprests í Kópavogi.
Bolli segir blendnar tilfinningar fylgja því að yfirgefa Laufás en hann er uppalinn á staðnum og hefur verið sóknarprestur í Laufásprestkalli í níu ár.
„Auðvitað er viss söknuður sem fylgir því að fara héðan og ég mun sakna bæði manna og málleysingja. Ég er líka æginlegur vorkarl þar sem ég er með bæði kindur og æðavarp. Það er afskaplega mikið líf hérna í Laufási á vorin og ég kem til með að sakna þessa árstíma mest,“ segir Bolli. „En ég finn líka fyrir þakklæti og horfi meira til þess. Þetta verður sennilega áratugur sem ég hef starfað hér þegar uppi er staðið því ég mun fara í námsleyfi í september í haust og verð í því í eitt ár. Síðan var staðan hér auglýst,“ segir Bolli, sem ætlar að læra bókmenntir í háskólanum.
„Ég ætla finna í mér gamla námstakta,“ segir hann og hlær. Bolli hefur lengst af búið í Laufási eða í samtals 25 ár. Hann þekkir þó ágætlega til í borginni enda starfaði hann sem prestur í Breiðholti um tíma. „Þetta verða spennandi breytingar. Börnin okkar eru senn að fljúga úr hreiðrinu og þá breytast hlutirnir. Þau fara í aðrar áttir. Einnig er Sunna Dóra úr borginni og við eigum fullt af ættingjum og vinum þar. Þannig að ég er fullu tilhlökkunar líka,“ segir Bolli.
Ómissandi um páskana
En aftur að föstugöngunni sem er framundan er í dag, föstudaginn langa. Gengið verður frá þremur stöðum í prestakallinu í Laufás. Lagt verður af stað kl. 11.00 frá Svalbarðskirkju í Laufás, kl. 11.00 frá Végeirsstöðum í Fnjóskadal í Laufás og kl. 12.00 frá Grenivíkurkirkju í Laufás. Bolli segir þetta skemmtilegan sið og dæmi séu um að fólk komi ár eftir ár.
„Þetta er partur af prógramminu um páskana hjá mér og mörgum öðrum. Það hefur alltaf viðrað ágætlega fyrir göngu á þessum degi og ég held að það verði engin breyting á í ár. Viss kjarni hefur sett þetta inn á dagatalið hjá sér og missir ekki úr göngu. Svo bætist alltaf í hópinn,“ segir Bolli. Hann segir að fólk sé vitanlega frjálst að koma inn í göngurnar hvar sem er. Hver ganga hefst á orði og bæn. Mikilvægt er að hafa með sér nóg af vatni og góða skó fyrir gönguna.
Í þjónustuhúsinu í Laufási verður hægt að kaupa sér súpu og aðrar veitingar við komu og verður veitingasala í umsjá veitingastaðarins Kontórsins á Grenivík. Tónleikar verða í Laufáskirkju kl. 14.30. Þeir Gunnar Björn Jónsson og Þorkell Pálsson syngja við undirleik Petru Bjarkar Pálsdóttur og er aðgangur ókeypis.