Segja stjórnvöld hafa gleymt Norðurlandi
Stjórn Markaðsstofu Norðurlands (MN) átti nýverið samtal með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra; þar sem áhyggjum á stöðu ferðaþjónustunnar á Norðurlandi var komið á framfæri. Í apríl kynnti ráðherra, Vörðu; nýja heildstæða nálgun áfangastaðastjórnunar. Athygli vekur að fyrstu áfangastaðirnir sem hefja ferli til að verða Vörður eru Gullfoss, Geysir, Þingvallaþjóðgarður og Jökulsárlón. Allt staðir á sunnanverðu landinu.
Vörðulaust á Norðurlandi
Með Vörðu verða lögð drög að fyrirmyndaráfangastöðum og verða Vörður áfangastaðir á Íslandi sem teljast einstakir á lands- eða heimsvísu. Meginaðdráttarafl þeirra eru náttúrufyrirbæri og/eða menningarsögulegar minjar sem mynda sérstætt landslag eða landslagsheildir.
„Við lýstum okkar óánægju með þetta við ráðherra,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri MN í samtali við Vikublaðið. „Við teljum að það séu sannarlega staðir hér fyrir norðan sem eiga skilið að vera með í þessum fyrsta hópi,“ segir hún og bendir á að fjármagn sem verkefninu fylgi skipti gríðarlegu máli í uppbyggingu fyrir ferðaþjónustuna. „Við lýstum því við ráðherra og teljum að við séum gleymd á þessu svæði.“
Arnheiður Jóhannsdóttir
Dregið úr stuðningi
Þá hefur verulega verið dregið úr stuðningi ráðuneytisins við Flugklasann Air66N sem snýr að því að efla millilandaflug um Akureyrarflugvöll; Hann fær átta milljónir í stað 20 milljóna. „Þetta er högg og þetta eru skilaboð sem við erum ósátt við. Okkur finnst þetta lýsa ákveðinni stefnu sem við erum ósammála. Þetta er úr takti við hvernig ráðherra hefur talað hingað til um að styðja okkur eins og með flugið. Við erum eðlilega mjög svekkt með þessa niðurstöðu. Það eru alltaf tölurnar sem skipta máli í þessu samhengi en ekki hvað menn segja.“
Þá segir Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður kjördæmisins að Flugklasinn sé mikilvægt verkefni sem skili miklu til samfélagsins. „Það að ríkið dragi sínar fjárveitingar til Flugklasans saman úr 20 í 8 milljónir er mikið högg fyrir rekstur klasans sem hefur velt rétt rúmum 30 milljónum síðastliðin ár. Ég tel mikilvægt að markaðssetning Akureyrarflugvallar og með sama hætti Egilsstaðarflugvallar sé áfram sem mest í höndum heimamanna, tel að það muni skila okkur mestum árangri til lengri tíma. Þannig að mínu mati þarf að leiðrétta kúrsinn í þessu máli,“ segir hann.
Skökk samkeppnisstaða
Arnheiður er bjartsýn á að ráðherra sjái hlið landsbyggðarinnar á málinu enda hafi fundurinn verið góður. „Samkeppnishæfni okkar er mun verri en t.d. á höfuðborgarsvæðinu og við erum enn þá með ofboðslega árstíðasveiflu. Fyrirtækin eru mörg búin að loka og verið með lágmarksstarfsemi allt þetta ár. Það er ekkert sjálfgefið að menn fari í gang aftur af fullum krafti,“ útskýrir Arnheiður og leggur áherslu á að stjórnvöld geri sitt í viðspyrnu ferðaþjónustunnar og að þær aðgerðir verði að skila sér út á land.
„Stuðningsaðgerðirnar stjórnvalda hafa farið meira á höfuðborgarsvæðið; ferðagjöfin, hvert hún hefur skilað sér? Við getum horft á aðrar aðgerðir sem voru góðar en til lengri tíma skekkir samkeppnishæfni okkar því minna hefur skilað sér út á land,“ segir Arnheiður og bendir m.a. á það að ef rýnt er í tölfræði um ferðahegðun og hvert ferðamenn eru að skila sér, einnig hvar er mest verið að byggja upp þá blasi við að landsbyggðin sé útundan. „Þá sér hver heilvita maður það að það þarf að gefa í til að byggja upp hérna fyrir norðan.“
Vikublaðið sendi fyrirspurn til ráðherra atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis vegna málsins en svar hafði ekki borist þegar blaðið fór í prentun.
/epe