Hollvinir Punktsins segja Akureyrarbæ loka á mikilvæga starfsemi

Rósenborg.
Rósenborg.

Hollvinir Punktsins handverksmiðstöðvar á Akureyri eru ósáttir við þá ákvörðun Akureyrarbæjar að flytja starfsemina frá Rósenborg og upp í Víðilund þann 1. apríl. Segja Hollvinirnir að með þeirri ákvörðun sé nánast verið að loka starfseminni sem hefur verið í Rósenborg frá árinu 2007.

Barbara Hjartardóttir hjá Hollvinum Punktsins segir ákvörðunina þvert á loforð bæjaryfirvalda um að starfsemin yrði þar í allavega tvö ár og að þegar farið yrði í flutning yrði rætt við þá aðila sem málið varðar. „Það hefur ekki verið gert og farið með þessa ákvörðun mjög leynt og eiginlega undir radar,“ segir Barbara. Hún segir að ef starfsemin fari í Víðilund blasir við að hún verði mikið skert.

„Húsnæðið er t.d. ekki boðlegt og bíður ekki upp á að starfsemin blómstri. Hún yrði mest í niðurgröfnum kjallara með ekkert aðgengi fyrir hreyfihamlaða. Eina leiðin niður er í gegnum stigagang blokkanna sem eru tengdar þjónustumiðstöðinni. Þá eru bílastæðin líka vandamál.“

Nauðsynleg þjónusta fyrir marga

Barbara Hjartardóttir

Barbara bendir á að starfsemin sé nauðsynleg fyrir margt fólk í samfélaginu.

„Sérstaklega í dag þegar svo margir eru án vinnu og þurfa stað sem þeir geta komið og verið virkir í einhvers konar starfi.“ Hún segir Punktinn hafa verið rós í hnappagatið hjá bænum í áraraðir. „Hingað hafa embættismenn komið með fólk til að skoða og einnig hafa fulltrúar frá öðrum sveitafélögum komið hingað til að skoða starfsemina og skoða möguleikann á að setja svona starfsemi í þeirra sveitafélagi.“

Virk starfsendurhæfing hefur verið í samstarfi við Punktinn sem hefur gefist vel. „Margir hafa náð góðum bata með sín andlegu veikindi eins og t.d. félagsfælni og þunglyndi.“ En hvað bíður Punkturinn upp á fyrir fólk? „Hér er m.a. smíðastofa og margir hafa verið að gera við og smíða húsgögn og aðrir notað til að fegra heimilið. Þarna er líka leirstofa sem hægt er að gera margt fallegt. Glerstofan er líka góð og þar fæðast mörg verkin, diskar, skálar og ýmislegt sem ímyndunaraflið leyfir. Svo er saumastofa sem hægt er að kaupa efni og sauma það sem þér dettur í hug eða lagfæra. Einnig er hægt að koma og prjóna, hekla og spjalla við fólk,“ segir Barbara. „Svo er það mannlegi þátturinn í þessu öllu. Starfsmennirnir eru perlur. Þau eru alltaf til í spjall og ekki bara um daginn og veginn heldur um þig sem manneskju. Barnastarfið er líka einn partur af punktinum sem krakkar frá 4-7 bekkjar sækja og er það vinsælt að komast úr skólanum og til þeirra í Rósenborg.“

Þverskurðurinn af samfélaginu

Barbara segir allskonar fólk sækja Punktinn. „Þetta eru börn að sækja tómstundarnamskeið, fólk á öllum aldri hvort sem það er í vinnu eða ekki. Það má segja að þetta sé þverskurður af þjóðfélaginu. Að meðaltali hafa verið 300-400 komur á mánuði en það eru tölur fyrir Covid19.“ Barbara bendir á að starfsemin sé sérstaklega mikilvæg nú á tímum. „Atvinnuleysið hefur ekki verið meira í langan tíma. Svo er Covid að einangra marga í dag sem þurfa einmitt á þessum stað að halda. Reynslan sýnir að þessi staður gerir kraftaverk. Það er staðreynd að ef þú ert ekki virkur þá staðnar þú bæði andlega og líkamlega,“ segir Barbara.

Nýjast