Segir áfengissölu í Hlíðarfjalli ganga gegn forvarnastefnu Akureyrarbæjar
Meirihluti bæjarráðs Akureyrar hefur samþykkt að veita jákvæða umsögn vegna umsóknar um vínveitingaleyfi til rekstraraðila veitingasölu í Hlíðarfjalli með þeim skilyrðum að leyfi sé bundið samningi við nýverandi rekstraraðila sem gildir til 30. apríl og að afgreiðslutími virka daga sé frá kl. 16-19.
Nú er hægt að kaupa bjór, kakó með rommi, prosecco, hvítvín hússins (chardonnay) og rauðvín hússins (shiraz) á veitingastaðnum á hótelinu. Upp í Strýtu verður það bjór og kakó með rommi. Unnið er að því að setja upp svæði þar sem má neyta áfengis á skaflinum við nestishúsið. Við Strýtuna má fara með áfengið út á pall, en alls ekki í brekkurnar.
Áfengissalan er ekki óumdeild. Hilda Jana Gísladóttir S-lista sat hjá við afgreiðsluna og vill fá umsögn frá forvarnarfulltrúa. „Ég tel nauðsynlegt að fá umsögn forvarnafulltrúa Akureyrarbæjar um sölu áfengis í Hlíðarfjalli sem og mögulega umgjörð slíkrar sölu áður en ákvörðun sem þessi er tekin,“ segir í bókun Hildu Jönu.
Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista gagnrýnir þessa ákvörðun þónokkuð harðlega.
„Ég tel sölu áfengis í Hlíðarfjalli ganga harðlega gegn forvarnastefnu Akureyrarbæjar og á engan hátt viðeigandi á þessu svæði þar sem ungt fólk, börn og fjölskyldur hafa hingað til notið útivistar og samveru sem er að mínu mati mikilvægur þáttur í þjónustu við íbúa bæjarins. Þessi ákvörðun samræmist á engan hátt því ákvæði í samstarfssáttmála bæjarstjórnar um að setja hagsmuni barna og ungmenna í forgang. Vert er að benda á að mikil hætta getur skapast í brekkunum hafi skíðafólk ekki fulla stjórn á hreyfingum sínum. Sé það vilji meirihluta bæjarráðs að leyfa sölu áfengis í Hlíðarfjalli ætti í það minnsta að setja þröngar skorður og aðeins leyfa vínveitingar í veitingasölu og ekki megi afgreiða áfengi í öðum umbúðum en opnum glösum,“ segir í bókun Sóleyjar.
Sóley Björk Stefánsdóttir