Segir neyðarástand ríkja við Oddeyrargötu

Eins og sést á mndinni er Oddeyrargatan afar þröng með bílastæði öðru megin og gangstétt hinumegin. …
Eins og sést á mndinni er Oddeyrargatan afar þröng með bílastæði öðru megin og gangstétt hinumegin. "Við þurfum sem dæmi að ganga yfir götuna til að komast á gangstéttina, yfir þessa stórhættulegu umferðargötu. Vert er að bæta því við að þegar snjór er í götunni líkt og við höfum í dag og gatan þrengist extra mikið hika menn ekki við að dúndra upp á gangstéttina og strjúkast meðfram lóðarmörkunum án þess að hægja nokkuð á ferðinni," segir íbúi við götuna. Mynd/aðsend

Íbúar við Oddeyrargötu á Akureyri hafa áhyggjur af umferðaröryggi við götuna og sendu inn bréf til bæjaryfirvalda fyrir mánuði síðan þar sem skorað var á bæinn að gera úrbætur hið snarasta.

Enn hafa engar úrbætur verið gerðar og bréfinu hefur heldur ekki verið svarað. Aðalsteinn Svan Hjelm, íbúi við götuna vakti máls á þessu á fjasbókinni fyrir skemmstu. Í samtali við Vikublaðið segir hann að búið sé að berjast fyrir úrbótum í áratugi vegna síversnandi umferðar en án árangurs. Sjálfur hefur hann búið við götuna í þrjú ár.

DAgur Oddeyri

Eins og fréttin á skjáskotinu hér fyrir ofan sýnir þá hafa íbúar við Oddeyrargötu barist fyrir auknu umferðaröryggi í hverfinu í áratugi. Fréttin er úr Degi árið 1982.

 Aðalsteinn bendir á að samkvæmt síðustu mælingum í götunni, þar sem hámarkshraðinn er 30 km/klst, er meðalhraðinn að mælast upp undir 40 km/klst og þeir sem hraðast aka eru á um það bil 80 km/klst. „Um 70% ökumanna aka hér um hverfið okkar yfir hámarkshraða! Hér hefur verið keyrt á fólk, utan í bíla, inn í garða, á rafmagnskassa hjá okkur (og stungið af með rafmagnið liggjandi utan í kassanum). Bærinn veit af þessu en hreinlega vill ekkert gera í málunum einhverra hluta vegna,“ skrifar Aðalsteinn til Vikublaðsins.

Oddeyrargatan er hvorki skilgreind sem stofnbraut né tengibraut heldur er fyrst og fremst íbúagata.

Engin viðbrögð

„Við sendum […] áskorun á stjórn Akureyrarbæjar fyrir mánuði síðan þar sem við lýsum yfir neyðarástandi í götunni og köllum eftir tafarlausum aðgerðum til skamms tíma sem snýr að þrengingum og hraðahindrunum en líka að leitað sé ráðgjafar t.d. til verkfræðistofu sem við vitum að margar hverjar hafi tekist á við álíka vandamál og að lögð verði fram framtíðarsýn sem við getum öll sætt okkur við,“ segir Aðalsteinn og bætir við að Akureyrarbær sé að stækka mikið en um leið sé ekki gert ráð fyrir að gamla gatnakerfið  geti tekið við aukinni umferð í takt við fólksfjölgun og fjölgun ferðamanna.

„Viðbrögðin frá stjórn Akureyrarbæjar hafa verið nánast engin og heyrist mér innan úr Ráðhúsinu að ekki verði brugðist við þessari áskorun með nokkrum hætti, ekki frekari en fyrri daginn - nú eða áratuginn,“ segir Aðalsteinn og spyr hvort  fulltrúar bæjarins myndu sætta sig sjálfir við þennan hraða og umferðarþunga í eigin íbúagötum.

„Bænum ber skylda til að bregðast við, til þess kjósum við hér á fjögurra ára fresti og borgum útsvar - vitandi það að bæjarfulltrúar sitja í bæjarstjórn í okkar umboði með heill íbúa sinna að leiðarljósi. Það er þeirra lögboðna skylda,“ segir Aðalsteinn en vill þó taka fram að íbúum þyki afar vænt um götuna sína og vilja búa þar til framtíðar. „Þegar úrbætur hafa verði gerðar í takt við nútímakröfur um almennt öryggi íbúa og gangandi og hjólandi vegfaranda hér verður hverfið enn eftirsóknarverðara fyrir fjölskyldur jafnt sem aðra sem vilja búa þar sem stutt er í alla þjónustu,“ segir Aðalsteinn og bætir við að hann óttist að einhver muni slasast eða láta lífið í götunni áður  en langt um líður ef ekki verður gripið í taumana strax. 

Segir lögregluna áhyggjufulla

Þá bendir Aðalsteinn á að lögreglan á Akureyri hafi sýnt áhyggjum íbúanna mikinn skilning. „Lögreglan hefur verið ekkert nema almennilegheitin og hefur verið dugleg að mæla hér í götunni eftir ábendingar frá okkur. Meðan á mælingum stendur hægist umtalsvert á umferðinni, skiljanlega, en svo fer hún í botn aftur þegar lögreglan er á brott aftur. Ég hef talað persónulega við lögregluna hér oft og þau eru þar 100% sammála okkur að ástandið sé óásættanlegt en það standi í raun á bænum að bæta götuna, eina sem lögreglan getur gert er að sinna sínum skildum hér.“

Nýjast