Segir Hildu Jönu fara með rangt mál
Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, segir Hildu Jönu Gísladóttir bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar fara með rangt mál varðandi ákvörðun bæjarstjórnar er að snúa að umdeildum byggingum við Tónatröð.
Meirihluti bæjarstjórnar Akureyrar samþykkti á þriðjudagskvöldið að úthluta verktakafyrirtækinu SS-Byggir fjölbýlishúsalóð við Tónatröð án auglýsingar. Hilda Jana gagnrýndi þetta harðlega í Facebookfærslu og segist bæði döpur og slegin yfir ákvörðuninni. Sagði hún ákvörðun meirihlutans í bæjarstjórn óvönduð vinnubrögð.
Þessu svarar Gunnar Gíslason í Facebookfærslu í gær sem má sjá hér að neðan:
"Í gærkvöldi gerðist það að bæjarfulltrúi hér í bæ ákvað að setja hér inn færslu um ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar um skipulag í Tónatröð. Því miður er í færslunni farið með rangt mál, sem mér finnst alvarlegt í ljósi þeirrar umræðu sem færslan hefur vakið.
Í fyrsta lagi er fullyrt í færslunni að lóðunum í Tónatröð hafi verið úthlutað til verktakans. Þetta er rangt því í bókun meirihlutans segir m.a. "Felur það í sér að umsækjanda er veitt vilyrði fyrir lóðum á þessu svæði, með vísun í heimild sem fram kemur í gr. 2.4 í reglum um úthlutun lóða. Endanleg úthlutun fer þó ekki fram fyrr en að loknum skipulagsbreytingum, náist samkomulag um breytingu á skipulagi svæðisins." Það þarf sem sagt að ná samkomulagi um skipulagið sem unnið verður að. Lokaorðið verður alltaf hjá skipulagsráði og bæjarstjórn og það hefur það einnig í för með sér að ef ekki næst samkomulag þannig að verktakinn sjái sér ekki fært að byggja á svæðinu, fellur hann frá því.
Í öðru lagi birtir bæjarfulltrúinn mynd sem hún veit vel að er úr takti við umræður í bæjarstjórninni og gefur því alranga mynd af því sem hugsanlega verður gert á lóðunum. Þessi mynd hefur vakið gríðarlega athygli hér á vefnum og margir tjáð sig um hana sem þá tillögu sem samþykkt var í gær. Hér er viljandi verið að villa um fyrir fólki um hvað var samþykkt og er það að mínu mati alvarleg rangfærsla til að villa um fyrir fólki.
Hið rétta er að það á eftir að klára skipulags- og hönnunarvinnu og hún liggur ekki fyrir, en verktakinn fær tækifæri til að koma með tillögur en þær verða aldrei að veruleika nema með samþykki skipulagsráðs og bæjarstjórnar þegar þar að kemur. Það er því alrangt sem margir halda fram að það sé verið að færa skipulagsvaldið frá bæjarstjórn.
Til þess að skýra afstöðu meirihlutans er rétt að setja hér inn bókunina við þetta mál frá því í gær, sem væri ánæglegt að sjá fólk kynna sér áður en stóru orðin eru látin fjúka:
Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir að heimila eigi umsækjanda að vinna að gerð breytingar á skipulagi svæðisins til samræmis við fyrirliggjandi umsókn í samráði við skipulagssvið og skipulagsráð, samanber þá fyrirvara sem komu fram í lóðarumsókn. Felur það í sér að umsækjanda er veitt vilyrði fyrir lóðum á þessu svæði, með vísun í heimild sem fram kemur í gr. 2.4 í reglum um úthlutun lóða. Endanleg úthlutun fer þó ekki fram fyrr en að loknum skipulagsbreytingum, náist samkomulag um breytingu á skipulagi svæðisins að loknu skipulagsferli í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010.
Það má svo bæta við að þessar lóðir hafa verið í auglýsingu frá árinu 2009 sem einbýlishúsalóðir. Þar hefur verið gert ráð fyrir mjög stórum húsum sem geta verið allt að 17 metra há. Það hefur enginn sýnt þessum lóðum áhuga sem slíkum. Það er hins vegar rétt að það barst fyrirspurn um þær árið 2018 þar sem voru viðraðar hugmyndir sem skipulagsráð hafnaði. Síðan eru liðin tvö ár og þetta fyrirtæki hefur ekki sýnt þessum lóðum neinn áhuga síðan og ekki komið fram með nýjar hugmyndir.
Í ljósi þess lóðaskorts sem blasir við hér á Akureyri á næstu mánuðum fór formaður skipulagsráðs af stað og ræddi við þrjá verktaka og benti þeim þessar lóðir með það í huga að koma málinu á hreyfingu. Einn af þessum þremur verktökum lagði inn hugmyndir sínar í kjölfarið. Þessar hugmyndir voru teknar fyrir í skipulagsráði 9. desember 2020 og var þar bókað: "Skipulagsráð samþykkir að úthluta lóðinni til SS Byggis ehf. með fyrirvara um að lagðar verði fram nákvæmari tillögur að uppbyggingu innan tveggja mánaða." Þetta er samhljóða samþykkt bókun.
Það kemur síðar fram að samþykkt Skipulagsráðs verður að staðfesta í bæjarstjórn af því að verið er að samþykkja tillögu sem gengur út á breytingu á skipulagi svæðisins."