13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Sáu kirkjuna fuðra upp og ekki varð neitt við ráðið
„Við erum auðvitað bara núna í dag að átta okkur á þessum harmleik, en mér heyrist á fólki hér að ekki komi annað til greina en að byggja upp á ný,“ segir Henning Jóhannesson útgerðarmaður í Grímsey um eldsvoðann þar í gærkvöld sem varð Miðgarðakirkju að bráð. Ekkert stendur eftir af kirkjunni. Hún var byggð úr rekaviði árið 1867.
Tilkynnt var um eldinni seint í gærkvöld og varð kirkjan fljótt alelda. Henning segir að veður hafi verið mjög slæmt, stíf norðanátt hvassviðri upp á um 18 til 20 metra á sekúndu. „Það var mjög erfitt að athafna sig við slökkvistörfin og ekki við neitt ráðið í þessum veðraham,“ segir hann. „Þetta tók allt saman skamman tíma, líklega eitthvað innan við klukkutíma frá því eldsins varð vart og allt var orðið að rústum einum.“ Slökkvistarf snérist einnig um að verja Miðgarða sem stendur skammt frá kirkjunni. „Það var nánast ekki stætt þarna fyrir vindi og menn sáu kirkjuna fuðra upp fyrir augum sínum. Það var virkilega erfitt.“
Við blasir sviðin jörð
Henning segir að dapurlegt sé um að litast umhverfis kirkjuna nú, sviðin jörð blasi við. „Þetta er mjög erfitt fyrir okkur hér að horfa upp á þetta. Þessi staður var okkur kær, var okkar griðastaður þar sem við komum saman í gleði og sorg. Ættingjar og vinir eiga í hinstu hvílu í kirkjugarðinum. „Ég veit auðvitað ekki hvað verður, en mér finnst líklegt að menn standi hér saman og reisi nýja kirkju,“ segir Hennig. Sjónarsviptir sé af þeirri gömlu og mikið af dýrmætum munum hafi orðið eldinum að bráð.
Þyngra en tárum taki
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri og þar með Grímseyjar segir að eldsvoðinn sé mikið reiðarslag, tilfinningalegt tjón fyrir Gímseyinga og alla þá sem unni eyjunni við heimsskautsbaug. Byggð hafi staðið höllum fæti og áfall á borð við þetta því þyngra en tárum taki er haft eftir bæjarstjóra á vefsíðu Akureyrarbæjar.
Ekki er á þessari stundu vitað um orsakir brunans en rannsókn hefst í dag. Tæknimenn frá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu héldu út í eyju eftir hádegi einn frá rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri sem og einnig fulltrúar frá Mannvirkjastofnun og Slökkviliðinu á Akureyri.