Samþykkja framtíðarsýn fyrir skíðasvæði Húsvíkinga
Fjölskylduráð Norðurþings fjallaði fyrir nokkru um hönnunarskýrslu SE Group á skíðasvæðinu við Húsavík.
Samráðshópur áhugafólks um uppbyggingu á skíðasvæði Húsvíkinga á Reyðarárhnjúk hefur unnið að verkefninu frá upphafi og fjallað um þá hönnun er fyrir liggur.
Á vinnufundi í maí bókaði vinnuhópurinn ályktun þar sem almenn ánægja kom fram með niðurstöður skýrslunnar. Frá fyrstu hönnunardrögum hefur svæðið verið einfaldað. Möguleikar á heilsársnýtingu svæðis eru kannaðir, þar sem nú lægi fyrir hönnunargögn sem hægt sé að vinna út frá í uppbyggingu svæðisins í framtíðinni.
Fjögur atriði úr skýslunni
Í skýrslunni er bent er á fjögur atriði í lyftumálum: Lenging á núverandi lyftu, ný 1300m stólalyfta, ný toglyfta fyrir ofan núverandi lyftu, töfrateppi, bílastæði og þjónustusvæði er nálægt fyrirhuguðu göngusvæði
Nánari staðsetning á endastöðum lyftna yrði ákveðin út frá hæðarmælingum og snjómælingu. Hönnunarskjalið og lyftuteikningar gefa grófa vísbendingu um bestu kosti svæðisins.
Sveitarstjórn forgangsraðar
Nú hefur sveitarstjórn Norðurþings fjallað um málið en á fundi hennar var eftirfarandi tillaga samþykkt samhljóða:
„Undirrituð leggja til að skipulags- og framkvæmdaráð taki skýrslu um hönnun útivistarsvæðisins við Reyðarárhnjúk til umfjöllunar samhliða umfjöllun um framkvæmda- og fjárhagsáætlun m.t.t. áframhaldandi uppbyggingar á svæðinu. Jafnframt verði niðurstaða fundar með samráðshópi um uppbyggingu svæðisins nýtt til að forgangsraða framkvæmdum á svæðinu á komandi árum svo sem að bæta aðgengi og aðstöðu fyrir fólk og tæki. Enn fremur að áfram verði unnið með samráðshópnum að eflingu svæðisins.“ segir í tillögunni.
Helena Eydís Ingólsfsdóttir, D-lista sagði að koma þurfi þessu máli áfram núna þegar hönnun liggi fyrir þannig að það komist í farveg.
„Við höldum þessum boltum á lofti á komandi árum og áratugum. Það er ljóst að ef við ætlum að fylgja þessari hönnun eftir að það er eitthvað sem kostar sveitarfélagið tugi ef ekki hundruði milljóna í framkvæmd. Það er ekki biti sem er gleyptur í einu lagi heldur er þetta eitthvað sem við þurfum að taka í smáum skrefum sem langtíma plan,“ sagði Helena.
Soffía Gísladóttir B-lista tók undir með Helenu og sagði vinnu samráðshópsins virkilega metnaðarfulla. „Virkilega metnaðarfullur hópur og ánægjulegt þegar grasrótin tekur svona mál í sínar hendur og vinnur þær jafn vandlega og hér hefur verið gert,“ sagði hún.
Hafrún Olgeirsdóttir hvatti framkvæmda og skipulagsráð til að setja framarlega á forgangslista byggingu á geymsluhúsnæði undir vélar og tæki. „Ég tel nauðsynlegt að verði farið verði í það sem fyrst.“