Samherji Heildarafli dróst saman en unnið alla daga
Heildarafli ísfisktogara Samherja dróst saman um 3.200 tonn á liðnu fiskveiðiári samanborið við árið þar á undan. Þrátt fyrir samdráttinn var unnið alla daga í fiskvinnsluhúsum Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa.
Gerðir voru út fimm ísfisktogarar, eitt frystiskip og tvö uppsjávarskip á árinu 2022. Þegar veiðiheimildir nýs fiskveiðiárs lágu fyrir í september í fyrra var ljóst að bregðast þurfti við samdrætti í heimildum, einkum þorski og var ákveðið að leggja einu skipi tímabundið.
Unnið var úr 35 þúsund tonnum af hráefni á árinu í vinnsluhúsunum á Dalvík og Akureyrar og var uppistaðan afli frá eigin skipum Samherja. Þá gengu uppsjávarveiðar ágætlega og Vilhelm Þorsteinsson EA reyndist vel á sinni fyrstu loðnuvertíð.
„Skipin eru öll vel búin og sömu sögu er að segja um vinnsluhúsin. Við erum með góða samsetningu aflaheimilda og nauðsynlegt var að fara af stað með Snæfellið til að nýta sem best veiðiheimildirnar,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja á aðalfundi félagsins nýverið, en frystitogarinn Snæfell EA 301 bættist í flotann í ágúst í fyrra