30. október - 6. nóember - Tbl 44
Sameiningu MA og VMA mótmælt. Yfirlýsing aðila úr atvinnulífi á Akureyri.
Með skynsamlegum ákvörðunum stjórnvalda hvers tíma, dugnaði og stórhug Akureyringa hefur bærinn öðlast sess sem mikilvægasti skólabær landsbyggðarinnar.
Menntaskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri njóta báðir viðurkenningar og virðingar nemenda og bæjarbúa. Þeir svara um margt ólíkum en mikilvægum kröfum nemenda, samfélags og atvinnulífs á Akureyri og um þá fjölbreytni og samkeppni milli skólanna hefur ríkt víðtæk sátt. Óskiljanlegt er að Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra vilji nú rjúfa þá sátt með sameiningu skólanna og fullyrði fortakslaust með hliðsjón af niðurstöðu stýrihóps í hans ráðuneyti, „að með sameiningu þessara framhaldsskóla verði til mun öflugri stofnun til að mæta þeim áskorunum sem skólasamfélagið stendur frammi fyrir á komandi árum og vinna að þeim markmiðum sem sett hafa verið fram í menntastefnu.“
Telji ráðherrann að samlegðaráhrif fjárhagsleg og fagleg myndu nást með sameiningunni hefði verið eðlilegra að byrja á að láta reyna á þá samlegð með auknu samstarfi skólanna og með skýrum markmiðum sem tækju mið af þeim áskorunum framtíðar sem ráðherra telur sig greina.
Það er áhyggjuefni að stjórnvald gangi til verka í þessum efnum með þeim hætti að gera fyrirfram hvorki greiningu á kostum og göllum sameiningarinnar, né á þörfum atvinnulífsins í landshlutanum og hafi heldur ekki haft samráð við helstu hagsmunaaðila á svæðinu um fyrirhugaðar breytingar. Fyllsta ástæða er til að ætla að þær breytingar valdi framhaldsskólastiginu á Akureyri varanlegum skaða. Óskum við hér með eftir fundi með ráðherra til þess að fara vandlega yfir hans rök og okkar.
Ak-inn
Bautinn Akureyri
Ferro Zink
Finnur verktaki og vélaleiga
Húsheild/Hyrna
Höldur - Bílaleiga Akureyrar
Íslensk Verðbréf
Kaldbakur
Kjarnafæði Norðlenska
Kælismiðjan Frost
Leirunesti
Malbikun Norðurlands
N Hansen
Norlandair
Rafeyri
Raftákn
Rub23
Samherji
Sigurgeir Svavarsson verktaki
Skógarböðin
Slippurinn Akureyri
SS Byggir
T-Plús
Vélfag
Veitingahúsið Greifinn