Sala aðventutrjáa í algleymingi
Sala aðventutrjáa Skógræktarfélags Eyfirðinga er nú í fullum gangi „Við skutlum þeim tilbúnum með ljósunum á til viðskiptavina og sækjum aftur í janúar.,“ segir Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri SE, en þessi þjónusta hefur verið í boði í mörg ár.
Hann segir sölu hafa aukist á liðnum árum, kóvid heimsfaraldurinn sé gjarnan notaður til að skýra breytingar hvort heldur sem er til góðs eða ills, „og hvort sem covid hafði áhrif hvað það varðar eður ei, þá á starfsfólk okkar margar ljúfsárar minningar frá þeim tímum þegar fólk bjó við einangrun og samskipti voru takmörkuð. Við færðum viðskiptavinum tré heim á pall og stungum seríunni í samband og fólkið stóð svo innan við rúðuna, brosti og veifaði alsælt í einagruninni með að sjá ljóstýru út um gluggann og hefur svo haldið uppteknum hætti þó betur ári.“
Jólatréin eru ýmist ræktuð í skógarreitum félagsins eða fengin hjá jólatrjábændum á svæðinu sem leggja sitt af mörkum við að anna eftirspurn og halda uppi gæðum. Tvær helgar í desember býðst fólki að höggva eigin jólatré í Laugalandsskógi og segir Ingólfur að áhersla sé lögð á að gera svolítinn viðburð úr því að velja jólatré, „því þegar fjölskylda er búin að rökræða heil lengi um hvað sé besta trjátegundin, flottasta tréð, hvernig tréð var í fyrra og fleira í þeim dúr verður tréð svo dýrmætt þegar það er komið heim í stofu.“