Sala á jólakjöti svipuð og í fyrra
Desember er langstærsti mánuðurinn hjá okkur og við seljum vel á þriðja hundrað tonn af kjöti í jólamánuðinum, uppistaðan er hangikjöt og hamborgarhryggir, enda heldur fólk nokkuð fast í hefðirnar. Aðrar vörur njóta líka vinsælda svo sem léttreyktur lambahryggur og sala á fersku kjöti hefur aukist ár frá ári í desember, segir Ingvar Már Gíslason markaðsstjóri Norðlenska á Akureyri. Við tölum gjarnan um að hver landsmaður snæði hangikjöt frá Norðlenska tvisvar sinnum yfir hátíðarnar, enda eru rúllurnar og lærin frá okkur um 65 þúsund, þannig að við erum að tala um mikið magn.
Hangikjötið á þrotum
Það fóru fjórir flutningabílar frá okkur í gær, megnið fór á markað fyrir sunnan, enda flestir kaupendur þar, segir Gunnlaugur Eiðsson framkvæmdastjóri Kjarnafæðis. Hann segir að salan í desember hafi verið góð. Uppistaðan er eðlilega hangikjöt og hamborgarhryggir, rétt eins og undanfarin ár. Það er mikið álag á starfsfólki og vaktirnar eru langar, enda er desember stærsti mánuðurinn. Við eigum ekki mikið af hangikjöti eftir á lager, enda hafa verslanir verið að birgja sig upp fyrir jólin. Salan er svipið hjá okkur, miðað við undanfarin ár, en sala á nýju kjöti hefur aukist nokkuð á undanförnum árum.
Nánar um þetta í prentútgáfu Vikudags