13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Safnaði 160 þúsund krónum fyrir Krabbameinsfélagið
Dalvíkingurinn Heiðar Andri Gunnarsson, nemandi á félags- og hugvísindabraut VMA, efndi til sérstaks áheitahlaups í þágu Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis í tengslum við Vorhlaup VMA sem fram fór nýverið. Þetta var í fyrsta sinn sem Heiðar Andri reimar á sig hlaupaskóna og tekur þátt í slíku almenningshlaupi.
Amma Heiðars Andra glímir við krabbamein og því vildi hann styrkja gott málefni og tókst honum að safna 160 þúsund krónum. Frá þessu er greint á heimasíðu VMA.
„Ég hafði aldrei á ævinni hlaupið áður í svona hlaupi. En mig langaði til þess að prófa þetta og jafnframt vildi ég hafa einhverja ástæðu fyrir því að hlaupa. Ég ákvað því að efna til áheitahlaups og áheitin myndu renna til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Ástæðan er sú að amma mín greindist nýverið með krabbamein. Ég heyrði því í fjölskyldunni og vinum og það vildu allir leggja þessu lið og heita á mig - og þá gat ég ekki hætt við, ég varð að hlaupa,“ sagði Heiðar Andri.
Næsta skref segir hann vera að innheimta áheitin og koma peningunum til Krabbameinsfélagsins.