Ritjulegir sauðir gerðu ekki ráð fyrir mikilli ofankomu né miklum frostum
Á fundi í veðurklúbbi Dalbæjar sem fram fór fyrir skemmstu urðu strax upp miklar vangaveltur um veðrirð í janúar. „Við vorum bara nokkuð sammála um hvernig það gæti orðið. Nefnilega svipað hérna Norðanlands og í desember en þó með minna frosti. Núna gætu orðið meiri norðvestan áttir en þær gera sjaldnast mikinn usla hérna á Stór- Dalvíkursvæðinu,“ segir í fundargerð klúbbsins.
„Að þessu sinni voru það ritjulegir sauðir í draumum sem gerðu ekki ráð fyrir mikilli ofankomu né miklum frostum í janúar,“ segir í fundargerðinni.
Þá vorum uppi vangaveltur um sérstök þekkt veðrabrigði og var niðurstaðan sú að þau væru allt of fá skráð hjá bændum og búaliði.
„Úr þessu langar okkur gjarnan að fá að bæta með því að leita hér með eftir því að komast í samskipti við bændur um allt land sem hafa fylgst með og tekið eftir einhverri reglu eða allavega viðmiði í veðri í sínu nágrenni sem hefur vísað til einhverskonar ákveðnu veðri í framhaldinu.
Því biðjum því alla sem þetta lesa að þefa fyrir okkur uppi hvern þann sem gæti verið líklegur til þessa og biðja viðkomandi að vera í sambandi við okkur á andlitsbókinni okkar eða reyna að fá upplýsingar frá viðkomandi sem við getum svo bætt við tilvonandi veðrabrigða samantekt okkar.“
Eitt merkilegt veðrabrigði kom til tals á fundinum en það nefnist Hjaltagat og er lýst með eftirfarandi:
Örnefni eru oftast nær af jarðneskum toga enda varla hægt að ímynda sér margt sem rótbindur manninn fastar við landið sitt en nöfnin í umhverfinu. Eitt er þó það örnefni á Íslandi sem er himneskt og enginn hefur nokkru sinni fest hönd á. Það er Hjaltagat í Köldukinn. Þessu örnefni er svo lýst í örnefnaskrá Gvendarstaða eftir Alfreð Ásmundsson en Helgi Jónsson var heimildarmaður hans:
„Þá eru talin þau örnefni á Gvendarstöðum sem þekkt eru á jörðu niðri. En á himni uppi, séð frá Gvendarstöðum og fleiri bæjum, er eitt örnefni, Hjaltagat, kennt við mann, er Hjalti hét og fyrstur veitti því athygli. Í þrálátri norðaustanátt og óþurrkatíð, þegar himinninn hefir lengi verið þoku kafinn, svo að hvergi hefir séð til lofts, bregður stundum fyrir, einkum seinni part dags, eða að kvöldi, heiðríkjurönd yfir Hrafnsstaðaöxl. Oftast er þessi rönd bogamynduð. Þetta er Hjaltagat og boðar þurrk að morgni, sem stendur í þrjá daga. Þess þarf vel að gæta að hvorki á undan eða jafnhliða Hjaltagati sjáist nokkurs staðar í heiðan himin. Komi það fyrir er veðurspáin marklaus.“