Ríflega 100 fleiri en í fyrra sækja um aðstoð fyrir jólin hjá Velferðarsjóði

Sigríður M Jóhannsdóttir formaður Mæðrastyrksnefndar á Akureyri og formaður Velferðarsjóðs í Eyjafir…
Sigríður M Jóhannsdóttir formaður Mæðrastyrksnefndar á Akureyri og formaður Velferðarsjóðs í Eyjafirði. Um 540 manns sóttu um aðstoð úr sjóðnun nú fyrir jólin.

Um 540 manns sóttu um aðstoð frá Velferðarsjóði Eyjafjarðarsvæðis nú fyrir jólin en lokað hefur verið fyrir úthlutun. Þetta er mun stærri hópur en sótti um aðstoð í fyrra en þá hafði samt orðið talsverð aukning á milli ára. Hægt var í fyrsta sinn nú að sækja um rafrænt og nýttu margir sér þann möguleika.

„Þetta sýnir að staða hefur versnað mikið, það er allt að hækka, húsaleiga, matur, bensín og þjónustu og greinilega er stór hópur í samfélaginu sem á í erfiðleikum með að ná endum saman. Fólk hefur úr minna að spila en áður. Við áttum von á aukningu milli ára í ljósi aðstæðna í samfélaginu en kannski ekki alveg svona mikilli,“ segir Sigríður Magnea Jóhannsdóttir formaður Mæðrastyrksnefndar á Akureyri og formaður Velferðarsjóðs Eyjafjarðarsvæðis. Hún segir að vart hafi verið við mikla aukning í allt haust, fleiri en áður hafi óskað eftir aðstoð undanfarnar vikur.

Alls sóttu 433 um aðstoð fyrir jólin í fyrra en nú eru vel yfir 500 sem sækja um og segir Sigríður Magnea að bæði sé um að ræða einstaklinga og einnig fjölskyldur þannig að mun fleiri séu raunverulega á bak við þessa tölu.  Stór hluti hópsins eru öryrkjar eða fólk á framfæri sveitarfélagsins. Dæmi eru þess að sögn Sigríðar Magneu að nokkrir hafi afþakkað aðstoð eftir að ljóst var að ríkið ætlaði að greiða öryrkjum desemberuppbót. „Það útspil hefur greinilega góð áhrif á hópinn,“ segir hún.

Gekk vel að safna

Vel hefur gengið að safna fé og segir hún að fyrirtæki, félög, einstaklingar og stofnanir hafi líkt og undanfarin ár lagt sitt lóð á vogarskálar og fyrir það séu forsvarsmenn Velferðarsjóðsins þakklátir. Formlegri söfnun lýkur á nýju ári.

Óskað var eftir tilboðum frá þremur verslunum á Akureyri, Bónus, Krónunni og Nettó og bauð sú fyrstnefnda mesta afsláttinn þannig að inneignarkort voru keypt þar að þessu sinni. „Við erum að kaupa kort fyrir 15 til 16 milljónir króna fyrir okkar skjólstæðinga,“ segir Sigríður Magnea en kortum með upphæð frá 30 og upp í 50 þúsund er úthlutað og er hún miðuð við stærð fjölskyldna.

Sigríður Magnea segir að auk þess fái þeir sem sóttu um jólaaðstoð inneignarkort hjá Rauða krossinum og Hertex. Þá gefi Samherji umtalsvert magn af fiski sem verður dreift, MS mjólkurvöru rog KS leggi líka sitt af mörkum, m.a. kjöt. „Við höfum heyrt af því að það sé vel í lagt fyrir norðan, en við náum að safna fyrir þessu og viljum hafa þetta svona,“ segir hún. Fjallað er um jólaaðstoðina í prentútgáfu Vikublaðsins sem kemur út á morgun, fimmtudag.

Nýjast