Rétt um 900 skrifuðu undir mótmæli við lokun Glerárlaugar
Rétt um 900 manns skrifuðu undir mótmæli gegn því að loka Glerárlaug fyrir almenningi líkt og boðað hefur verið í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar. Með lokun laugarinnar fyrir almenning sparast um 20 milljónir króna í rekstrarkostnað yfir árið.
Þær Margrét S. Kristjánsdóttir, Anna Dóra Gunnarsdóttir og Ásta Sigurðardóttir afhentu Höllu Björk Reynisdóttur undirskriftarlistana í Ráðhúsi Akureyrarbæjar í dag. Fram kom í máli þeirra að söfnunin hafi ekki verið kynnt með neinum hætti og enginn áróður rekin fyrir henni. Listarnir hafi einungis legið frammi á fjórum stöðum í bænum þar sem tryggt var að sóttvarna væri gætt og stóð söfnun undirskrifta yfir í rúma viku.
Í yfirskrif listans segir að ef af lokun fyrir almenning verður gangi það þvert gegn stefnu um heilsueflandi samfélag og lýðheilsu bæjarbúa. „Í nokkra mánuði á þessu ári var ekkert viðunandi aðgengi að lauginni vegna framkvæmda á lóð og aðliggjandi götum,“ segir á undirskriftarlistanum. Og að það hefðir komið sér illa fyrir marga fastagesti og því hafi þess ekki verið að vænta að þangað kæmu þeir sem ekki þekktu til. Laugin er heldur ekki lengur sjáanlegfrá götu og merkingar um hana eru ekki lengur til staðar.
Þeir sem rituðu nöfn sín á listann trúa ekki öðru að sögn þeirra sem afhentu hann en að bæjarstjórn hafi gert mistök og hugmyndinni verði sópað út af borðinu áður en endanleg fjárhagsáætlun verður borin upp til afgreiðslu.
Í versta falli aðeins tímabundin lokun
Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar Akureyrar tók við undirskriftarlistunum fyrir hönd bæjarins. Hún sagði að í vinnu við fjárhagsáætlun hafi verið lögð áhersla á að færa reksturinn nær sjálfbærni og öllum steinum hefði verið velt við.
Unnið hefði verið með það að hafa Glerársundlaug einungis opna fyrir hópa og kennslu en loka fyrir almenning. Útfærslu á opnunartíma og athugun á því hvort takmörkuð opnun fyrir almenning sé möguleg sé ekki lokið, „en við bæjarfulltrúar bindum vonir við að ásættanleg lausn finnist og að í versta falli verði fyrirhuguð lokun aðeins tímabundin,“ segir Halla Björk.