„Reksturinn er bara munaðarlaus"

ÖA reka heimili fyrir um 180 íbúa á tveimur stöðum á Akureyri, í Hlíð og Lögmannshlíð.
ÖA reka heimili fyrir um 180 íbúa á tveimur stöðum á Akureyri, í Hlíð og Lögmannshlíð.

Frá 1. janúar næstkomandi mun Akureyrarbær hætta rekstri Öldrunarheimila Akureyrar (ÖA) en óvíst er hvaða aðili á vegum ríkisins muni taka við rekstrinum. Þetta kemur fram í aðsendri grein sem Ingi Þór Ágústsson, forstöðumaður Austurhlíðar, Öldrunarheimila Akureyrar, skrifar í blaðinu. Ingi bendir á að þegar fjárlög ríkisins fyrir árið 2021 séu skoðuð sést að sérstakt framlag til reksturs ÖA sé ekki þar að finna, né í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar.

Ingi Þór segir í samtali við Vikublaðið að staðan sé alvarleg. „Reksturinn er bara munaðarlaus eins og er og þetta er verulegt áhyggjuefni. Þetta er hundleiðinleg staða,“ segir Ingi Þór. Hann segir ennfremur í grein sinni að heildarstefnumótun í málefnum aldraða í sveitarfélaginu virðist ekki liggja fyrir.

45 íbúðir standast ekki kröfur

Þann 3. desember var undirritaður samningur á milli Heilbrigðisráðuneytis og Akureyrarbæjar um byggingu nýs 60 rúma hjúkrunarheimilis við Vestursíðu 9 á Akureyri. Þar með verða hjúkrunarrými á Akureyri rúmlega 230 en þau eru núna um 170. Ingi Þór bendir hins vegar á að í dag séu margar íbúðir gamlar og óhentugar sem þarfnist viðhalds og endurbóta.

„Það eru um 45 íbúðir sem standast ekki kröfur nútímans og ég vil meina að sé ekki eldra fólki bjóðandi,“ segir Ingi Þór í samtali við blaðið.

Nýjast