13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Rekstur Sjúkrahússins á Akureyri gekk vel í fyrra
Árið 2019 var í heildina farsælt í starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri (SAk). Nokkuð hægðist á þeim samfellda vexti sem verið hefur í starfseminni um langt árabil en þó var áframhaldandi vöxtur í dag- og göngudeildarþjónustu. Þróun á þeirri starfsemi sem fyrir var hélt áfram og inn komu nýir þjónustuþættir. Þar má nefna göngudeild endurhæfingar snemma árs og starfsemi Heimahlynningar í lok ársins. Reksturinn gekk almennt vel en fór lítillega fram úr fjárheimildum. Þetta er meðal þess sem kom fram á ársfundi sjúkrahússins, sem haldinn var í gær.
Svipað umfang starfseminnar
Starfsemin var í heildina svipuð að umfangi og fyrra ár. Komum í dag- og göngudeildarþjónustu fjölgaði um 3,5% milli ára en farin voru 40 færri sjúkraflug en árið eða 766. Almennum rannsóknum fækkaði um 3,7%, myndgreiningar voru svipaðar að fjölda en skurðaðgerðum fjölgaði um 3,3%. Í biðlistaátaki heilbrigðisráðuneytisins voru gerðar 257 gerviliðaaðgerðir eða 24 fleiri en árið áður. Fjöldi legudaga var svipaður og árið áður. Árið 2019 fæddust 434 börn í 403 fæðingum, 15 fleiri en árið áður.
Um 1,5% halli á rekstri
Heildarútgjöld vegna reksturs hækkuðu um 5% á milli ára og voru 9.020 milljónir króna. Reksturinn fór fram úr fjárheimildum um 122 milljónir króna, eða um 1,5%. Meginástæðan var hærri launakostnaður en gert var ráð fyrir í áætlunum, meðal annars vegna aukinna orlofsskuldbindinga og afleysinga í veikindum. Sjúkrahúsinu bárust framlög og tækjagjafir frá Hollvinasamtökunum og öðrum velunnurum fyrir um 42 milljónir króna
Merkir áfangar
Á vordögum 2019 fékk sjúkrahúsið vottun á allri starfsemi sinni samkvæmt ISO 9001 staðlinum, fyrst íslenskra heilbrigðisstofnana. Jafnframt var alþjóðleg vottun á gæðakerfi SAk, sem tekur til faglegra þátta starfseminnar, endurnýjuð. Merkir áfangar náðust einnig í þróun á rafrænum kerfum, svo sem lyfjaumsýslu, vaktakerfum á deildum og fræðslukerfi. Þá fékk upplýsingatæknideild ISO 27001-vottun og jafnlaunavottun fyrir sjúkrahúsið var staðfest snemma árs 2020. „Starfsfólk Sjúkrahússins á Akureyri skilaði mjög góðu starfi á öllum sviðum starfseminnar á liðnu ári og það hefur styrkt sjúkrahúsið enn frekar í sessi sem heilbrigðisstofnun í fremstu röð,“ sagði Bjarni Jónasson, forstjóri sjúkrahússins.
Hann sagði jafnframt mjög ánægjulegt að finna það mikla traust sem ríkir í garð sjúkrahússins hjá íbúum á þjónustusvæði þess. Þar vísar hann til könnunar sem Gallup gerði í lok árs 2019 meðal íbúa á Norður- og Austurlandi. Í könnuninni sögðust 85% aðspurðra bera mikið traust til sjúkrahússins og 88% þeirra sem höfðu nýtt sér þjónustuna sl. 12 mánuði voru ánægð með hana. „Sama velvild endurspeglast í Hollvinasamtökum sjúkrahússins og framlögum úr ýmsum áttum í Gjafasjóð SAk. Þessi stuðningur úti í samfélaginu er ómetanlegur okkur öllum sem hér störfum,“ segir Bjarni.