Rekstrarniðurstaðan á SAk jákvæð um 13,6 milljónir kr.

Sjúkrahúsið á Akureyri. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson.
Sjúkrahúsið á Akureyri. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson.

Árið 2020 var eflaust óvenjulegasta árið í sögu Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) og forvera þess frá upphafi. Meginástæðan er Covid-19 faraldurinn sem skall á í mars. SAk setti á stofn viðbragðsstjórn til að takast á við faraldurinn, sérstaka legudeild til að sinna Covid-19 smituðum og sérstaka göngudeild sem vann í nánu samstarfi við Covid-göngudeild Landspítala.

Áhrifin á aðra starfsemi voru mikil, m.a. þar sem valaðgerðum á skurðstofum var tvívegis frestað tímabundið og starfsemi dag- og göngudeilda raskaðist. Þrátt fyrir þetta var sótt fram á ýmsum sviðum og reksturinn gekk almennt vel og skilaði 13,6 milljóna króna afgangi. Þetta er meðal þess sem kom fram á ársfundi sjúkrahússins, sem haldinn var fyrr í dag.

Komum sjúklinga á dag- og göngudeildir fækkaði um 9% milli ára. Legudögum fækkaði um 12% og sjúklingum á legudeildum fækkaði um 14%. Almennum rannsóknum fækkaði um 7% á milli ára og myndgreiningum um 17%. Þá fækkaði skurðaðgerðum um 19%. Farin voru 19% færri sjúkraflug en árið áður en hlutfall sjúkraflugs með lækni um borð hækkaði úr 48% í 54% alls sjúkraflugs. Fæðingum fækkaði um 14 milli ára en á árinu fæddust 397 börn í 389 fæðingum.

Jákvæð rekstrarniðurstaða

Heildarútgjöld vegna reksturs hækkuðu um 8,5% á milli ára og voru 9.785 milljónir króna samanborið við 9.020 milljónir árið áður. Rekstrarniðurstaða ársins var jákvæð um 13,6 milljónir. Sjúkrahúsinu bárust gjafir frá Gjafasjóði SAk að upphæð 24,5 milljónir króna á árinu og frá Hollvinum SAk og öðrum velunnurum fyrir 55,7 milljónir. Bókfært verð tækjabúnaðar sem sjúkrahúsinu var gefinn á árinu er því 80,2 milljónir króna. Stærstu gjafirnar voru ómtæki fyrir hjartarannsóknir, 14 sjúkrarúm fyrir fæðingadeild, lasertæki og búnaður fyrir æðahnútaaðgerðir í skurðlækningum, ferðaöndunarvél fyrir gjörgæslu og sjúkraflug, hágæslusjúkrarúm fyrir gjörgæslu, ómtæki og 6 ungbarnavöggur fyrir fæðingadeild, meðferðarstóll fyrir almennu göngudeildina og 4 sjónvörp fyrir barnadeild.

Bjarni Jónasson

Í sóknarhug

Bjarni Jónasson, forstjóri SAk, sagði í ræðu sinni á fundinum að baráttan við Covid-19 hefði skilað starfseminni fram á fjölmörgum sviðum. Baráttan hefði endurspeglað gildi SAk; öryggi, samvinna, framsækni vel. Þá hafi samvinna og samráð innan heilbrigðiskerfisins aukist til muna, öllum til hagsbóta. „Lærdómurinn sem við drögum af því sem gerðist á liðnu ári á eftir að verða okkur veganesti til nýrrar nálgunar í að veita þjónustu og skipuleggja verkefni og starfsemi á nánast öllum sviðum. Það er full ástæða til bjartsýni og með það í huga sækjum við fram – í sóknarhug,“ sagði hann.

Nýtur mests trausts allra stofnana

Bjarni nefndi sérstaklega þann mikla hlýhug og velvild sem ríkir í garð Sjúkrahússins á Akureyri.Þetta endurspeglist í starfi Hollvina og Gjafasjóðs SAk og ekki síður í niðurstöðum úr könnun Gallup þar sem íbúar á Norður- og Austurlandi voru spurðir um traust til Sjúkrahússins á Akureyri og viðhorf til þjónustu þess.

„Skemmst er frá því að segja að 90% íbúanna bera mikið traust til Sjúkrahússins á Akureyri og 95% þeirra sem höfðu nýtt sér þjónustuna sl. 12 mánuði voru ánægðir með hana. Þetta er ívið betri niðurstaða en fyrir ári og þegar horft er til trausts stofnana sem Gallup mælir í þjóðarpúlsi sínum skorar Sjúkrahúsið á Akureyri hæst. Þetta er frábær vitnisburður um það góða starf sem hér er unnið,“ sagði Bjarni Jónasson m.a. í ræðu sinni á ársfundinum.

 

 

 

 

 

 

Nýjast