Rask en kemur okkur til góða

Nú standa yfir viðamiklar framkvæmdir í Löngumýri. Verið er að vinna í öllum fjórum veitunum – rafve…
Nú standa yfir viðamiklar framkvæmdir í Löngumýri. Verið er að vinna í öllum fjórum veitunum – rafveitu, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu Myndir Norðurorka

Á heimasíðu Norðurorku eru framkvæmdir sem nú standa yfir í  Löngumýri útskýrðar með einföldum og skýrum  hætti.  Niðurstaðan eftir lesturinn er,  jú rask en kemur okkur til góða.

 ,,Sumarið er tíminn og nú standa yfir viðamiklar framkvæmdir í Löngumýri. Verið er að vinna í öllum fjórum veitunum – rafveitu, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu.

 Í Löngumýri er verið að spennubreyta, en hvað þýðir það?

 Á Akureyri eru tvö mismunandi kerfi raforku, TT spennukerfi og TN-C spennukerfi. Hið síðarnefnda, TN-C, er almennt í öllum hverfum Akureyrar sem byggð eru eftir um 1970. Eldri hverfi eru að stórum hluta með TT spennukerfi. Öll endurnýjun búnaðar miðast við að TT afleggist og TN-C komi í staðinn. Samhliða spennubreytingum er verið að endurnýja hitaveitulagnir og vatnslagnir eftir því sem þörf krefur auk þess sem verið er að bæta við regnvatnslögn.

 Hvað er regnvatnslögn?

 Í öllum nýbyggðum hverfum á Akureyri er tvöfalt fráveitukerfi. Tvö rör frá hverju húsi, annað skólp og hitt regnvatn. Skólplagnir taka við því sem kemur frá salernum, vöskum, sturtum og böðum ásamt því sem kemur frá uppþvottavél og þvottavél. Regnvatnslögnin tekur vatn frá þakniðurföllum, niðurföllum í plönum, drenlögnum sem eru lagðar kringum hús og vatni frá heitum pottum.  Í eldri hverfum bæjarins, þar á meðal í Löngumýri, er einfalt kerfi, þ.e. eitt rör frá hverju húsi sem inniheldur þá bæði skólp og regnvatn. Einfalt kerfi veldur því að vatnsmagn í fráveitukerfinu eykst með tilheyrandi auknu álagi á dælur, lagnir og ekki síst á hreinsistöðina. Þannig er verið að dæla regnvatni, sem mætti í raun fara beint út í sjó, langar leiðir auk þess sem verið er að hreinsa vatn í hreinsistöðinni sem óþarfi er að hreinsa. Því er um að gera að nýta tækifærið og bæta við regnvatnslögn samhliða öðrum framkvæmdum.

 Öllum framkvæmdum fylgir rask en allt er þetta gert með hag íbúa að leiðarljósi 

Frá framkvæmdunum í Löngumýri

Nýjast