Rafskútuleiga opnar á Akureyri

Rafhlaupahjól njóta vaxandi vinsælda.
Rafhlaupahjól njóta vaxandi vinsælda.

Akureyrarbær og fyrirtækið Hopp hafa gert þjónustusamning um stöðvalausa rafskútuleigu á Akureyri. Stefnt er að því að hefja starfsemi leigu með 65 rafskútum í apríl. Fram kemur á vef Akureyrarbæjar að markmið bæjarins með þessu sé að styrkja net almenningssamgangna og auðvelda íbúum og gestum að komast ferða sinna innanbæjar með umhverfisvænum hætti. Aðrar aðgerðir sveitarfélagsins í þessa veru, sem unnið er að um þessar mundir, eru til dæmis endurskoðun á leiðaneti Strætisvagna Akureyrar og uppbygging á aðlaðandi og skilvirku stígakerfi samkvæmt nýju skipulagi.

Vikublaðið greindi fyrst frá þessu í haust og ræddi þá við Axel Albert Jensen sem hefur í samstarfi við Hopp í Reykjavík og Akureyrarbæ unnið að því í vetur að koma upp rafskútuleigu í bænum. Um er að ræða stöðvalausa hjólaleigu og munu gilda sömu reglur og í Reykjavík þar sem nokkur reynsla er komin á slíka starfsemi undir merkjum Hopp.

Mikil aukning hefur orðið á stöðvalausum rafhlaupahjólum í evrópskum borgum undanfarið sem umhverfisvænn kostur til að fara styttri leiðir og hafa rafskúturnar verið að ryðja sér til rúms hér á landi. Axel sagði að bæjarbúar þurfi ekki að óttast að fara upp brekkurnar á hjólunum; þau verði nægilega öflug.

Fyrirkomulag rafskútuleigunnar verður þannig að fólk notar smáforrit (app) til að finna næsta lausa hjól, aflæsir því, leggur af stað og skilar því svo aftur á svæðum þar sem það er heimilt. Fyrir þjónustuna greiðir notandi upphafsgjald og mínútugjald samkvæmt verðskrá fyrirtækisins.

 

 

 

Nýjast