13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
„Ráðherrar jóðla í sama farinu áratugum saman án þess að bregðast við“
Smábátaeigendur á Húsavík vilja að byggðarráð Norðurþings beiti sér fyrir því að dregin verði lína þvert yfir mynni Skjálfandaflóa, svo takmarka megi dragnótaveiðar nærri landi. Þeir telja að veiðislóðin þoli ekki ágengnina sem fylgi slíkum veiðarfærum og óttast þeir að fiskistofnar þurrkist upp verði ekkert að gert. Áríðandi sé að lokunin taki strax gildi út ágúst og í framhaldinu 1.september ár hvert fyrir hvert fiskveiðiár.
Byggðarráð Norðurþings tók fyrir erindi frá Hauki Eiðssyni f.h. smábátaeigenda á Húsavík þar sem skorað er á ráðið að beita sér gegn heimild til veiða með dragnót í Skjálfanda.
Byggðarráð tók vel í erindið og hefur falið sveitarstjóra að koma á fundi með sjávarútvegsráðherra hið fyrsta um að takmarka veiðarnar. Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri hafði ekki náð á nafna sinn ráðherrann við vinnslu fréttarinnar.
Vill að ráðherra bregðist við
Haukur Eiðsson segir í samtali við Vikublaðið að ef ekki verði brugðist við muni hrygningarstöðvarnar þurrkast upp í flóanum. „Þetta snýst um það í grunninn að maður horfir á hvern ráðherrann á fætur öðrum og þeir bregðast aldrei við einu eða neinu,“ segir hann.
„Að undanförnu hafa stór dragnótaskip verið að veiðum í Skjálfanda á hefðbundinni veiðislóð smábáta. Skip að stærðinni 283 brúttótonn með gríðarlega toggetu og veiðarfærið útbúið til bolfiskveiða á ekkert erindi á grunnslóð. Afkastageta þess er í þriðja veldi á við það veiðarfæri sem miðað var við þegar undanþága var gerð fyrir dragnót til veiða í fiskveiðlandhelgi Íslands. Jafnframt var litið til þess að veiðarfærið væri kjörið til veiða á flatfiski þegar undanþágan var veitt,“ segir Haukur jafnframt og bætir við að veiðislóðin þoli ekki þá ágengni sem beitt er með nútíma dragnót sem sniðin er fyrir bolfiskveiðar.
Þurrka upp hrygningarstofna
Í erindinu segir að á síðast ári hafi reglugerð þess efnis að dragnóta bátar skyldu halda sig innan ákveðins svæðis verið breytt. Nú megi þeir veiða hringinn í kringum landið. Þetta hafi orðið til þess að fimm öflugustu dragnóta bátar landsins veiddu í Skjálfandaflóa svo mánuðum skipti síðast liðið haust. Að mati smábátasjómanna kláruðu þeir hrygningarstofn ýsu í flóanum og fóru langt með þorskstofninn líka.
Vongóður en ekki bjartsýnn
Haukur segir að ráðherra sjávarútvegsmála verði að bregðast við. „Núverandi sjávarútvegsráðherrra er náttúrlega hliðhollur stórútgerðinni, það hafa staðið að honum öll spjót með það. Hann kórónaði það alveg í fyrra þegar hann opnaði svæðin upp á gátt fyrir þessa báta. Áður var þetta þó hólfaskipt. Hann lætur þarna undan þrýstingi og nú fara þessir snurvoðabátar flóa úr flóa hringinn í kringum landið og það er bara eyðimörk eftir þá,“ segir hann og bætir við að þessi veiðarfæri eigi ekki heima upp í fjörum.
„Við erum að tala um allt upp í 300 tonna báta og þeir útrýma hverjum einasta fiski og flóarnir sitja uppi með engan hrygningarfisk að vori. Maður er búinn að vera í þessu í yfir 20 ár og áhrifin eru greinileg,“ útskýrir Haukur. „Á meðan ekkert gengur að byggja upp fiskistofnana, þá jóðla ráðherrar áratugum saman í sama fari og enginn bregst við.“
Haukur segist þó ekki bjartsýnn á viðbrögð ráðherra. „Ekki miðað við verk hans hingað til. Auðvitað verður maður að vera vongóður en ég er ekki bjartsýnn samt,“ segir hann að lokum.