Pólsk matarveisla til stuðning úkraínskum flóttamönnum
mth@vikubladid.is
Síðustu vikur hafa íbúar í Svalbarðsstrandarhreppi keppst við að prjóna á börn og safna fötum sem send verða til Póllands og þaðan áfram til flóttamanna sem koma frá Úkraínu.
Nú síðastliðinn laugardag var efnt til fjáröflunar til styrktar úkraínskum flóttamönnum í Valsárskóla og segir Björg Erlingsdóttir sveitarstjóri að fyrir þeirri fjáröflun hafi pólskir íbúar hreppsins staðið. Þeir buðu sveitungum sínum til pólskrar matarveislu og fjölmenntu íbúar hreppsins í skólann til að leggja málefninu lið.
Fjármunir sem söfnuðust í pólsku matarveislunni verða að sögn Bjargar nýttir til þess að útvega hreinlætisvörur og bleyjur. „Öll viljum við leggja okkar af mörkum til þess að styðja við og aðstoða íbúa Úkraínu og augljóst að íbúar Svalbarðsstrandarhrepps eru boðnir og búnir til þess að hlaupa undir bagga,“ segir Björg.