Óvissa veldur mörgum kvíða
“Við finnum fyrir vaxandi kvíða hjá okkar fólki. Menn velta fyrir sér hvað haustið og ekki síst komandi vetur beri í skauti sér og hvaða snúningar hugsanlega verða í atvinnulífinu á svæðinu,” segir Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju.
Björn segir að nýjar reglur við landamæraskimun, tvöföld sýnataka og sóttkví á milli muni hafa slæm áhrif á ferðaþjónustuna og valda samdrætti. Ómögulegt væri að segja fyrir nú hversu mikil keðjuverkunin verður í kjölfarið á þeim samdrætti. “Það er mikil óvissa núna um hvenig þetta getur þróast, gera má ráð fyrir að dragist töluvert saman en óvíst enn hversu mikið. Þessi óvissa veldur fólki kvíða og það er vitanlega afleitt ástand,” segir hann.
Björn segir að í vor hafi allt eins verið gert ráð fyrir að róður yrði þungur nú í sumar, en niðurstaðan hins vegar orðið betri. “Við gerðum ráð fyrir meiri samdrætti í ferðaþjónustu, en sem betur fer voru landsmenn mikið á faraldsfæti og gerðu ágætlega við sig á ferðalögum sínu. Í heild hefur sumarið komið betur út en við þorðum að vona. Það er gleðilegt,” segir hann.
Fyrirsjáanlegur samdráttur þegar kemur fram á haustið
Hátt hlutfall starfa á Eyjafjarðarsvæðinu tengist matvælaiðnaði og fiskveiðum og vinnslu, þar sem ákveðin stöðugleiki ríkir. “Við hér á svæðinu náum aldrei upp í hæstu hæðir, þannig að dýfur á vinnumarkaði koma yfirleitt ekki eins harkalega niður og víða annars staðar þar sem atvinnulíf er byggt upp á annan hátt,” segir Björn. Þá eru einnig tiltölulega mörg störf á opinberum vettvangi á svæðinu, bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga. Þá nefnir hann að ágætt líf sé í byggingaiðnaði. Atvinnuleysi sé vissulega fyrir hendi hér um slóðir og fyrirsjáanlegt að það aukist eitthvað með haustinu. Atvinnuleysi hefur ekki bitnað í sama mæli á útlendingum á svæðinu og það gerir víða annars staðar. Skýring á því er m.a. að þeir eru áberandi margir að störfum í matvælaiðnaði og fiskvinnslum. “Það er ákveðið öryggi fyrir hendi hér á svæðinu þegar kemur að atvinnumálum, en við eigum ekki von á öðru en samdráttur verði þegar kemur fram á haustið á einhverjum sviðum,” segir hann.