20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Óupplýstur fjölfarinn stígur meðfram Glerá
Malbikaður göngustígur meðfram Glerá, frá Óseyri og upp að Höfðahlíð nýtur mikilla vinsælda og þar má gjarnan sjá fólk á ferð, á leið í vinnu eða erindi ýmis konar og eða í gönguferð sér til heilsubótar. Áhugasamir lesendur hafa af og til samband við Vikublaðið og bent á að setja þurfi upp lýsingu við stíginn þannig að hann nýtist fleirum þegar skyggja tekur.
Ekki sérlega bjart yfir honum þessum
Samkvæmt greinargerð sem er frá árinu 2021 fyrir stígakerfi bæjarins er umræddur göngustígur skilgreindur sem útivistarstígur. Almennt eru slíkir stígar ekki upplýstir. Þeir njóta heldur ekki forgangs varðandi snjómokstur, en eru vitanlega ruddir þegar aðrir sem framar eru í röðinni hafa verið ruddir.
Stígar á Akureyri eru ólíkir að gerð, segir í greinargerðinni,allt frá því að vera óupplýstir slóðar við jaðar þéttbýlisins yfir í malbikaðar breiðar og upplýstar leiðir nærri íbúðabyggð. Útivistarstígar liggja um náttúrulega svæði og í jaðri byggðar að því er fram kemur í greinargerðinni. Mikilvægt er að sem flestir útivistarstígar séu aðgengilegir með þarfir hreyfihamlaðra í huga svo að sem flestir geti notið útivistar og hreyfingar í náttúrulegu umhverfi á milli fjalls og fjöru.