„Ótrúlegur skilningur á erfiðum og viðkvæmum aðstæðum„

Svavar Alfreð Jónsson fyrir framan Akureyrarkirkju.
Svavar Alfreð Jónsson fyrir framan Akureyrarkirkju.

Stærri hjónavígsluathöfnum hefur í nokkrum mæli verið slegið á frest nú eftir að reglur um samkomuhald voru hertar og markið sett við að ekki komi fleiri en 100 manns saman. Aðrir halda sínu striki með þeim takmörkunum sem í gildi eru.

Svavar A. Jónsson sóknarprestur í Akureyrarkirkju segir að fermingar hafi farið fram í smærri hópum en algengt að beðið sé með veisluna þar til síðar. „Ég fermdi nýlega fjórar vinkonur sem óskuðu sjálfar eftir því að athöfnin færi fram. Vinkona þeirra spilaði á fiðlu í athöfninni og þær buðu nánustu fjölskyldu. Óvíst var um veisluhöld af þessu tilefni.  Kirkjuathöfnin skipti þessar fjórar vinkonur miklu máli og ég held að þannig sé nú um fleiri,”segir Svavar. „Ég hef lengi pirrast á þeirri klisju að ungmenni láti bara ferma sig fyrir veisluna og gjafirnar. Eflaust er það eitthvað misjafnt en mín reynsla er sú að flest barnanna taka þessu af mikilli alvöru og mér sárnar fyrir þeirra hönd þegar annað er gefið í skyn.“

80 manns komast fyrir í Akureyrarkirkju með tveggja metra reglu

Svavar segir að í langflestum kirkjum setji tveggja metra nálægðarreglan athöfnunum meiri skorður en 100 manna takmörkunin á fjölda. Sé fyrri reglunni fylgt komast t. d. ekki nema um það bil 80 manns fyrir í Akureyrarkirkju. 

Svavar segir það í einhverjum tilfellum nægja, en til að mynda bjargi streymi miklu fyrir marga þegar að útförum kemur.

„Mér finnst fólk sýna ótrúlegan skilning í mjög erfiðum og viðkvæmum aðstæðum. Ég vil hrósa því og líka starfsfólki kirknanna og útfararþjónustu sem reynir eins og hægt að koma til móts við skjólstæðinga sína. Ég er stundum hissa á því hversu vel fólk tekst á við þessar einkennilegu aðstæður. Í sorginni höfum við sérstaka þörf fyrir hvert annað og þessar takmarkanir eru ekki síst tilfinnanlegar fyrir syrgjendur.“

 

Nýjast