Ótækt annað en setja upp óperur í svona mögnuðu menningarhúsi
„Það er óhætt að segja að þetta fari vel af stað, uppselt á sýninguna á laugardag og örfá sæti laus á sunnudag, þannig að Akureyringar og nærsveitarmenn hafa svo sannarlega tekið vel í þetta sögulega samstarf Íslensku óperunnar og Menningarfélags Akureyrar um samstarf við uppfærslu á óperunni La Traviata,“ segir Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar í viðtali við Vikublaðið sem kom út á fimmtudag. En húsfyllir var á báðar sýningar.
Óperan La Traviata eftir Verdi var flutt tvívegis í Hofi um helgina. Hún var flutt í Hörpu helgina áður. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sér um hljómsveitarleikinn bæði norðan og sunnan heiða undir stjórn finnska hljómsveitarstjórans Anna-Maria Helsing sem áður hefur unnið með SN. Kór Íslensku óperunnar og dansarar koma einnig fram í sýningunni. Kórstjóri er Magnús Ragnarsson
Sýningum á óperunni var hætt vorið 2019 en þráðurinn nú tekin upp að nýju. Herdís Anna Jónasdóttir syngur aðalhlutverkið sem fyrr, en hún hlaut Grímuverðlaun sem söngvari ársins fyrir túlkun sína á hlutverki Violettu. Óperan La Traviata var frumflutt í Feneyjum árið 1853, hét upphaflega Violetta eftir aðalpersónunni og þykir eins sú fallegast sem samin hefur verið.
Fór að skoða hvaða möguleikar væru fyrir hendi
„Í fyrsta samkomubanninu í mars í fyrra fór ég að hugsa hvað Menningarfélag Akureyrar gæti lagt af mörkum til að skapa grundvöll fyrir óperuflutning í fullri stærð á Akureyri. Ég sendi út smákönnun á Fésbók um áhuga á stofnun Óperunnar á Akureyri og viti menn, það var bara heilmikið fjör þannig að ég fór fyrir alvöru að skoða hvaða möguleikar væru fyrir hendi,“ segir Þorvaldur Bjarni, en málið endaði með sögulegu samstarfi Íslensku óperunnar og Menningarfélags Akureyrar/Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands um flutning á La Traviata í Hörpu 6.nóvember og Hofi 13. nóvember.
Frábær umgjörð í Hofi
„Það er í raun ótækt að vera með svona magnað menningarhúsi eins og Hof og setja þar ekki upp óperur,“ segir hann. Og bendir á að þar búi sinfóníuhljómsveit, þar sé hljómsveitargryfja, leikmyndageymsla, djúpt svið, búningsherbergi fyrir fjölda manns og frábær hljómburður. „Allt þetta býr til umgjörð sem gerir okkur kleift að halda þar alvöru ballett, óperur og söngleikjasýningar. Samfélagið hér fyrir norðan hefur kveðið upp sinn dóm. Nær þúsund manns keyptu sér miða á óperuna og um það bil 100 listamenn og tæknifólk fékk vinnu við að flytja þetta magnaða listaverk í turnunum tveimur, Hofi og Hörpu.“
Þorvaldur Bjarni telur að ÓA- Ópera Akureyrar verði kannski einhvern tíma að veruleika, en þangað til vilji MAk tryggja að fyrsta flokks óperuflutningur sé í boði árlega í samstarfi við sérfræðinga á því sviði.
/MÞÞ