Óskarinn til Húsavíkur: „Þetta eiginlega datt bara upp í hendurnar á mér“

Óskar Óskarsson fer yfir málin með tökumanni og leikstjóra. Myndir  úr einkasafni Örlygs Hnefils Örl…
Óskar Óskarsson fer yfir málin með tökumanni og leikstjóra. Myndir úr einkasafni Örlygs Hnefils Örlygssonar

Húsavík hefur fengið gríðarlega athygli erlendra fjölmiðla allt frá því að Will Ferrel kom til Húsavíkur og gerði Netflix myndina Euro­vision Song Con­test: The Story of Fire Saga.  Eurovision-safnið sem er í bígerð á Húsavík fékk  til að mynda styrk uppá tvær milljónir frá ríkinu en það er Könnunarsögusafnið sem stendur fyrir safninu í samstarfi við Húsavíkurstofu, RÚV, Samband evrópskra sjónvarpsstöðva og Netflix. Búningar úr myndinni verða til sýnis á safninu m.a. blái kjóll Jóhönnu Guðrúnar og margt fleira.  

Þá er titillag myndarinnar, Husavik á skammlista óskarsverðlaunaakademíunnar. Lagið er á meðal þeirra 15 sem koma til greina til að hljóta tilnefningu til Óskarsverðlauna en tilnefningar verða tilkynntar á mánudag.

 

Nokkrir Húsvíkingar tóku sig til á dögunum undir forystu Örlygs Hnefils Örlygssonar, hótelstjóra og Eurovision-aðdáanda og gerðu myndband til að skora á akademíuna amerísku til að velja lagið af skammlistanum. Myndbandið sem var frumflutt á vef Fréttablaðsins er skrifað og framleitt af þeim Örlygi, Leonardo Piccione og Rafnari Orra Gunnarssyni. Jenný Lára Arnórsdóttir og Kristín Lea Sigríðardóttir leikstýrðu og sáu um leikaraval.

Örlygur sagði í samtali við Vikublaðið á dögunum að umræður um óskarstilnefningu hafi farið af stað um leið og myndin kom út og honum hafi þótt borðleggjandi að búa til smá hvatningu fyrir Óskars akademíuna.

Tilnefningum og verðlaunum hefur enda rignt inn fyrir lagið á síðustu misserum.

„Lagið fékk tilnefningu í Critics choice awards og það er náttúrlega ein af þremur stærstu verðlaununum í heimi kvikmyndanna vestan hafs. Svo erum við á shortlista fyrir óskarinn en það kemur í ljós eftir helgina hvort lagið hljóti tilnefningu,“ segir Örlygur og bætir við að lagið hafi unnið verðlaun gagnrýnenda bandaríska kvikmyndasambandsins og verðlaun laga og textahöfunda. „Sama hvernig fer, þá getum við vel við unað. Þetta lag er náttúrlega búið að vera þvílík kynning fyrir okkur hér á Húsavik. Ég googla Húsavík svona 30 sinnum á dag og það kemur alltaf eitthvað nýtt inn. Húsavík er að fá mjög mikla athygli þessa dagana. Það er engin staður á landinu sem fær meiri athygli, þrátt fyrri jarðskjálfta og yfirvofandi eldgos á Suðvestuhorninu,“ segir Örlygur kampakátur.

Örlygur

Þá ræddi blaðamaður Vikublaðsins við Óskar Óskarsson sem er aðalsöguhetja myndbandsins góða og  jafnframt eini Óskarinn á Húsavík samkvæmt söguþræðinum. Hann sagðist vera ákaflega spenntur fyrir því að fá annan Óskar í bæinn. „Já ég er mjög ánægður ef það kemur annar Óskar en vissulega þarf að vanda valið,“ segir hann og hlær góðlátlega.

Það ber að taka fram að Óskar Óskarsson er skálduð persóna en það er enginn annar en Sigurður Illugason, einn ástsælasti leikari Húsavíkur sem fer með hlutverk hans.

„Þetta eiginlega datt bara upp í hendurnar á mér. Þeir [Örlygur og Rafnar] sáu einhverja mynd af mér úr gömlu leikriti. Það var eiginlega bara dressið og holdningin á mér sem kveikti á þeim,“ segir Sigurður og bætir við að gervi Óskars sé ósköp svipað því sem hann brá sér í í Brennuvörgunum sem Leikfélag Húsavíkur setti upp fyrir nokkrum árum.

Sigurði er skemmt þegar blaðamaður hefur orð á því að líkleg hafi enginn íslenskur leikari fengið jafn mikla umfjöllun í heimspressunni á undan förnum dögum.

„Heldurðu það?“ spyr hann og hlær hástöfum og bætir svo við aðspurður að honum hafi ekki borist nein bitastæð tilboð um hlutverk í kjölfar þess að myndbandið fór á flug á internetinu. Hann bætir þó við, meira í gamni en alvöru að hann myndi hlusta á öll tilboð enda þurfi hann líklega að huga að því að skipta um aðalstarf en hann starfar sem málarameistari. „Nú ligg ég upp í sófa suður í Reykjavík og bíð eftir því að leggjast undir hnífinn, þannig að maður þarf líklega að fara skipta um starf,“ segir hann og hlær hátt. „Doktorinn ætlar að byrja á því að reyna bjarga öxlunum, þær eru ónýtar, hnén eru að fara líka,“ segir Sigurður Illugason að lokum.

Óskar

Myndbandið góða, „An Óskar for Húsavík“ hafði fengið tæplega 30 þúsund spilanir á youtube þegar þetta var ritað á þriðjudag.

Nýjast