Óska eftir hugmyndum um byggð í Síðuhverfi

Mynd af svæðinu eins og það er í dag. Mynd/Akureyri.is.
Mynd af svæðinu eins og það er í dag. Mynd/Akureyri.is.

Akureyrarbær býður íbúum að taka þátt í að móta fyrirhugað íbúðasvæði vestan Borgarbrautar í Síðuhverfi. Hugmyndasöfnun hófst í síðustu viku og eru íbúar hvattir til að taka þátt í gegnum rafræna samráðsvettvanginn okkar Akureyrarbæ á vef bæjarins.

Fram kemur á vef Akureyrarbæjar að vinna við deiliskipulag fyrir nýtt uppbyggingarsvæði, Kollugerðishaga, sé að hefjast og samhliða verði gerð breyting á Aðalskipulagi. Gert er ráð fyrir um 750 íbúðum í grænu, vistvænu og nútímalegu hverfi þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi.

„Markmiðið er að búa til gott hverfi í samráði við íbúa og þess vegna óskum við eftir hugmyndum. Okkar Akureyrarbær er samráðsvettvangur sem er hluti af Betra Íslandi. Kerfinu er ætlað að hvetja til lýðræðislegrar þátttöku íbúa og er ætlunin að þarna geti Akureyringar sett fram hugmyndir og haft áhrif á málefni sem snúa að þjónustu, starfsemi og rekstri sveitarfélagsins,“ segir á vef bæjarins. Hægt er að senda inn hugmyndir til og með 31. maí og koma þær allar til skoðunar við gerð skipulagsins.

Nýjast